142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil kanna hvernig ástatt er um hæstv. flutningsmann málsins, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson. Er hæstv. ráðherra á þinginu til þess að hlýða á umræðuna?

(Forseti (KLM): Hæstv. ráðherra er í húsi og hefur forseti þegar gert ráðstafanir til þess að færa honum boð um að hans nærveru sé óskað.)

Ég þakka virðulegum forseta kærlega fyrir það. Það er út af fyrir sig nóg fyrir mig að vita að hann er í húsi og hefur tækifæri til þess að hlýða á umræðuna.

Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í febrúar: Engar nefndir, enga starfshópa, aðgerðir strax í þágu heimilanna. Og nú er komið fram til hvaða heimila hann var að vísa. Hann var að vísa til heimila útgerðarmanna á Íslandi, því að skuldug heimili eru sett í nefndir, skuldug heimili eru sett í starfshópa en útgerðarmennirnir fá örlætisgjörningana strax.

Virðulegur forseti. Veiðigjaldafrumvarpið er glórulaust útgerðarmannadekur. Aldrei fyrr í sögu Íslands hefur nokkur atvinnugrein skilað viðlíka hagnaði og útgerðin á Íslandi gerir einmitt nú. Og þá, þegar gróðinn er meiri en nokkru sinni fyrr í sögunni, ákveður ríkisstjórnin að lækka skatta á útgerðina. Á sama tíma og heimilin í landinu búa við meiri skuldsetningu en nokkru sinni fyrr og á sama tíma og ríkissjóður býr eftir efnahagshrunið við meiri skuldsetningu og þrengri kost en fyrr. Það er vond forgangsröðun.

Við í stjórnarandstöðunni höfum vakið athygli á þeirri forgangsröðun og er augljóst af viðbrögðum úti í samfélaginu að þetta kemur fleirum en okkur hér spánskt fyrir sjónir. Þegar er hafin undirskriftasöfnun gegn þessum fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar og var getið um hana í utandagskrárumræðunni áðan. Mér skilst að sú undirskriftasöfnun heiti Óbreytt veiðigjald og sé staðsett einhvers staðar á internetinu. Hvort það er á facebook eða einhvers staðar á heimasíðu er mér ekki kunnugt um, þeir vita það eflaust betur píratarnir enda eru það þeir sem upplýstu um það í umræðunni. Mér er sagt að á rétt rúmlega sólarhring hafi þegar hátt í átta þúsund manns skrifað undir áskorun á Alþingi um að fara ekki í þessa lækkun og verði ráðist í hana verði hún samt ekki að lögum.

Ég held að það hljóti að vekja okkur til umhugsunar um að nú þegar virðast koma hjá almennum borgurum mjög hratt sterk viðbrögð við þessari forgangsröðun og ég vona að það sé þannig að núverandi stjórnarflokkar, sem lögðu mikla áherslu á það á síðastliðnu kjörtímabili að hlustað væri eftir röddum almennings, hlusti eftir því hvað hér er verið að segja og endurskoði þessi áform sín. Auðvitað er það þyngra en tárum taki að heyra hæstv. fjármálaráðherra ræða um að hugsanlega sé ekki til fyrir tannlækningum fyrir börn á sama tíma og menn ætla að létta yfir 6 milljörðum á ári af útgerðinni í landinu, á næsta ári 6,4 milljörðum.

Það er mikilvægt að við setjum þessar fjárhæðir í samhengi. Liðlega 6 milljarða skattalækkun útgerðarinnar á næsta ári jafngildir 60 þúsund kr. fyrir hvert heimili í landinu. Það er ekki mjög flókin stærðfræði, 60 þúsund kr. þarf þá hvert heimili í landinu að greiða meira að meðaltali í skatta eða þola í niðurskurð þjónustu. Það er alveg ljóst að umsvifin í sjávarútveginum takmarkast af aflabrögðunum og verði á mörkuðum og þessar lækkanir verða ekki til þess að auka neyslu, framleiðni eða hagvöxt svo neinu nemi, eins og góðir og gegnir hagfræðingar hafa þegar dregið fram. Ef það væri vilji landstjórnarinnar að beita skattalækkunum til þess að auka hagvöxt eða fjárfestingu í landinu væri það auðvitað gert með allt öðrum hætti en bara þeim að gefa mönnum afslátt af sköttunum sínum þegar greinin veit ekki aura sinna tal.

Auðvitað er hæstv. ríkisstjórn í fullum rétti að koma hér inn með mál sem endurspeglar áherslur hennar í þessu efni, en þær eru hins vegar svo augljóslega og hróplega andstæðar almannahagsmunum að við hljótum að hreyfa kröftugleika við andmælum. Við mundum varla gera athugasemdir við það þó að hæstv. ríkisstjórn vildi gera breytingar á gjaldinu. Það geta auðvitað verið málefnaleg sjónarmið fyrir því að einstaka útgerðarflokkar komi ekki vel út úr þessu eða að útgerðir af tiltekinni stærð þurfi að bera meira gjald en góðu hófi gegnir og eðlilegt væri að slaka til í gjaldtöku (Gripið fram í.) við þær með efnislegum röksemdum. Hér á þinginu eru auðvitað þjóðkjörnir fulltrúar sem vilja gjarnan hlýða á slíkar efnislegar röksemdir en það væri þá vegna þess að verið væri að breyta áherslum innan veiðigjaldsins, flytja frá einum útgerðarflokki til annars, ívilna einum en láta annan bera nokkuð meira á þessum erfiðu tímum þegar framleiðnin í greininni er nærri því 100.000 millj. kr. — nærri því 100.000 millj. kr. á ári, og hún átti að greiða, hvað?, um 14 milljarða fyrir aðganginn.

Hér er verið að lækka það niður í 17 kr. sem menn borga fyrir að veiða kíló af þorski. Sá sem hefur farið út í fiskbúð og keypt sér fisk veit býsna vel að 17 kr. eru ekki mikið gjald fyrir að hafa aðgang að þessari auðlind. Við vitum það öll að tvöfalt hærra gjald en það, 34 kr., væri í lagi og það væri enginn hörgull á útgerðum sem vildu nýta þær veiðiheimildir gegn því gjaldi, enda eru menn tilbúnir til þess að greiða margfalt það verð þegar þeir leigja til sín aflaheimildir. Því eru ekki sjáanleg nein efnisleg rök fyrir því að láta útgerðina hafa á silfurfati milljarða á milljarða ofan, sem þýða 60 þús. kr. á ári fyrir hvert heimili í landinu, í sérstakan skattafslátt á tímum þegar hún hefur aldrei haft það betra.

Menn geta auðvitað haft skilning á því að stundum vegnar ekki vel í sjávarútvegi. Stundum eru aflabrögð slæleg eða verð lágt á mörkuðum, olíuverð hátt, gengi krónunnar mjög sterkt eða önnur skilyrði óhagstæð útgerðinni. Og auðvitað kemur sterklega til álita á slíkum tímum að draga úr gjaldtökunni, enda var veiðigjaldið smíðað þannig að það legðist á nokkuð hraustlega þegar vel áraði en að hið sérstaka veiðigjald hyrfi á hinum árunum. Hér er hins vegar verið að lækka verulega gjaldið þegar afkoman er betri en nokkru sinni fyrr, þegar bullandi hagnaður hefur verið í útgerð á Íslandi ár eftir ár síðastliðin fjögur ár og hún hefur sem betur fer greitt upp skuldir sínar hraðar en nokkru sinni fyrr. Um leið og það er fagnaðarefni hversu vel hefur gengið er augljóst að það gefur ekkert tilefni til þess að veita sérstakan afslátt á þeim gjöldum sem greinin á að greiða fyrir aðgang að auðlindinni, með þeim fyrirvara að sjálfsögðu að við mundum ekki leggjast gegn því fyrir fram að það ætti að flytja eitthvað til innan gjaldsins, að einn útgerðarflokkurinn ætti að greiða eitthvað meira og annar eitthvað minna á grundvelli efnislegra sjónarmiða þar að lútandi um að einn bæri ósanngjarnar byrðar og einhverjir aðrir ættu að taka meira til sín.

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. atvinnuveganefnd til þess að taka þetta málefni til mjög ítarlegrar umfjöllunar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég minni á að þeir flokkar sem það leggja fram kölluðu á síðasta kjörtímabili eftir því að engar breytingar mætti gera á veiðigjaldinu nema farið yrði í ítarlega efnahagslega greiningu á áhrifum breytinganna á greinina. Ég held að það hljóti að vera nokkuð sem hv. atvinnuveganefnd hefur á dagskrá sinni þegar hún fær málið til umfjöllunar, því að auðvitað er það ekki ætlun okkar að koma í veg fyrir að nefndin fái málið til efnislegrar umfjöllunar, ég geri ráð fyrir því að hún hafi færi á því þegar á morgun. Á síðasta kjörtímabili var eftir því kallað að fá að málinu færustu hagfræðinga og greina áhrifin á sjávarútveginn. Það hlýtur auðvitað að eiga sérstaklega við núna um uppsjávargreinarnar vegna þess að þó að verið sé að lækka óhóflega veiðigjaldið í botnfiskinum er sannarlega verið að hækka það í uppsjávarfiskinum og hvort tveggja held ég að kalli á ítarlega greiningu á áhrifum þessara breytinga á greinina, þannig að menn megi hafa þær fyrir sér þegar þeir taka síðan endanlega afstöðu eða gera breytingartillögur við málið eins og það er fram komið.

Veiðigjaldið er mikið grundvallarmál. Það er einfaldlega spurningin um það hvort land er lýðræðisríki eða bananalýðveldi hvort almenningur nýtur góðs af auðlindum landsins eða bara einkaaðilar. Það er spurningin um hvort við erum kjánar sem látum arðræna okkur eða hvort við erum þjóð meðal þjóða þar sem almenningur gerir kröfu til þess að fá hlutdeild í arðinum af þeim auðlindum sem þjóðin sjálf fékk í vöggugjöf. Þetta er þess vegna ekki þingmál sem varðar einhverjar krónur til eða frá. Þetta er mál sem varðar grundvallaratriði um tilkallið til arðs af auðlindum þjóðarinnar, ekki bara af fiskinum í sjónum heldur öllum öðrum auðlindum. Og þá er það ekki bara spurningin um hvernig þeim arði er skipt í ár heldur líka spurningin um með hvaða hætti þeim arði er skipt til framtíðar, hvaða kröfu komandi kynslóðir, börnin okkar og barnabörn, eiga til þess að þær auðlindir sem við öll fengum í vöggugjöf megi verða til þess að létta þeim lífsbaráttuna á komandi árum og áratugum.

Það er þess vegna ekki ástæða til að ganga skemmra í því að innheimta auðlindagjöld á Íslandi eins og ríkisstjórnin leggur hér til. Það er þvert á móti full ástæða til þess að ganga lengra í því efni. Verkefnið núna er ekki að lækka gjöldin á auðlindirnar í hafinu heldur að bæta við gjaldtöku á orkuauðlindir landsins, á vatnsaflið og á jarðhitann. Það væri það verkefni sem ríkisstjórnin ætti að vera að vinna að, að styrkja afkomu ríkissjóðs, að bæta möguleikana á því að koma til móts við almenning, efla velferðarþjónustuna með því að auka tekjur okkar af okkar eigin auðlindum en ekki að gefa útgerðarmönnum sérstakan afslátt einmitt á því ári sem þeir græða sem aldrei fyrr.

Það væri auðvitað líka til þess fallið að jafna nokkuð milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Ýmsir gleyma því stundum að 101 Reykjavík er einhver stærsti útgerðarbær landsins og hafa margir haft það á orði að þetta leggist heldur þyngra á staði utan suðvesturhornsins. Það kunna að vera sjónarmið þar að baki, en þá væri það sannarlega til mótvægis gert að leggja gjald á orkuauðlindirnar, á þá miklu jarðhitavinnslu, á þá miklu vatnsaflsvinnslu sem er hér suðvestanlands og láta það með sama hætti renna helst hvort tveggja í auðlindasjóð, sem við gætum á komandi tíð fært sem arf komandi kynslóða frá kynslóð okkar. (Forseti hringir.) Það væri betur gert en þetta frumvarp hér.