142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hnotabítumst um ýmis smámál í þinginu frá degi til dags en hér ræðum við um grundvallaratriði. Það er rétt að hv. þingmaður hefur lagt það til að auðlindinni verði úthlutað til þjóðarinnar einu sinni á ári og henni leyft að ráðstafa sínum hlut þar í með þeim hætti sem hverjum og einum sýnist. Mér finnst það að mörgu leyti miklu betri aðferð en sú sem hér er lögð til. Hún mundi a.m.k. tryggja það að þjóðin fengi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald eins og hægt er að ætlast til, þ.e. það endurgjald sem réðist af markaði.

En vegna þess að við erum ekki stödd í draumaveröld og eigum ekki allra kosta völ verðum við að taka afstöðu til þeirra kosta sem í boði eru. Sá kostur sem ríkisstjórn hv. þingmanns hefur lagt á borðið er kosturinn um að lækka skatta á útgerðarmenn um 6,4 milljarða í ári þegar afkoman er betri en nokkru sinni fyrr. Það er ekki tillaga sem ég get fellt mig við vegna þess að ég tel að nota eigi þessa 6,4 milljarða með nánast hvaða öðrum hætti sem vera skal. Ef menn vilja nota 6,4 milljarða í skattalækkanir þá geri þeir það endilega, en þá til þess að örva nýsköpun, nýja útflutningsstarfsemi, til þess að auka umsvif í einstaka greinum eða ívilna fjárfestingum, en ekki nota þá í að gefa útgerðarmönnum peninga.

Hitt væri svo miklu betra, að nota þessa 6,4 milljarða í það að efla velferðarþjónustuna, það heilbrigðiskerfi sem nú hefur verið svelt svo lengi eða til að bæta kjör lífeyrisþega, en ekki að gefa þá útgerðarmönnum. Þeir þurfa ekki á því að halda.