142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:50]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið afar fróðlegt að fylgjast með umræðum um þetta merkilega mál, sem hafa staðið yfir í tvo daga, að ég hygg. Mér hefur þótt sérstaklega fróðlegt að fylgjast með umræðunum í ljósi þess að lítið hefur farið fyrir umræðu um meginefni frumvarpsins. Lítið hefur farið fyrir umræðu um tæknilega útfærslu á hinu sérstaka veiðigjaldi sem frumvarpið tekur til og skyldi nú kannski engan undra vegna þess að ekki er hlaupið að því að skilja fyrirkomulagið sem sett var fram í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili með sérstöku veiðigjaldi.

Ég hjó eftir því í umræðu hér, ekki á þessum þingfundi heldur fyrir einhverjum dögum, um málið að menn tiltóku að það væri merkilegt og einhver taldi það jákvætt að í þessum þingsal væru engar efasemdir uppi um töku gjaldsins sem slíks heldur væru menn að þrátta hér um útfærsluna sem slíka. Ég get þá komið hér fyrst fram í þessari umræðu um málið og lýst yfir efasemdum um veiðigjaldið sem slíkt og töku þess. (Gripið fram í: Almennt?) Almennt. Ég held að menn geti verið sammála um það miðað við málflutning manna í þessari umræðu um að lögin um töku veiðigjaldsins eru gölluð. Lögin eru meingölluð. Það hefur ekki verið hægt að framfylgja þeim og þess vegna stöndum við í þeim sporum að ræða útfærsluna fyrir næsta fiskveiðiár.

Í tilefni af ummælum sem fallið hafa um veiðigjald almennt og fiskstofnana við landið get ég ekki látið hjá líða að leiðrétta þann misskilning sem mér fannst koma fram í máli einhverra hv. þingmanna hvað varðar fiskstofnana. Ég árétta það sem fræðimenn eru nú almennt sammála um að fiskstofnarnir sjálfir eru ekki í eigu eins eða neins. Þeir flakka á milli lögsagna. Þeir eru ekki í eigu eins eða neins en Alþingi hefur í skjóli fullveldisréttar, eins og menn þekkja hér, heimild til þess að setja reglur um nýtingu á þessum fiskstofnum.

Það er enginn eignarréttur sem fylgir þessu. Ég vil árétta það, af því að mér fannst annað koma fram í ræðu hv. þingmanna áðan, t.d. að 1. gr. laga um stjórn fiskveiða frá árinu 2006 hefur enga eignarréttarlega þýðingu, bara svo menn hafi það í huga í umræðunni í framtíðinni þegar málið kemur aftur til kasta þingsins. Það er þannig enginn réttur til leigugjalds. Að sjálfsögðu er hægt að leggja á skatta en menn skulu þá kalla hlutina réttum nöfnum. Það er auðvitað hægt að leggja á skatta en það er ekki á grundvelli nokkurs eignarréttar og það er það sem hér er til umfjöllunar.

Það sem er til umfjöllunar er veiðigjaldið, það er skattur. Eins og ég nefndi áðan eru þessi lög, nr. 74/2012, sem frumvarpið lýtur að, lögin um veiðigjöldin, gölluð. Þau eru tæknilega óframkvæmanleg í dag því að gjaldið er ekki hægt að reikna. Um það eru menn sammála, það hefur komið fram í máli hv. þingmanna.

Lögin eru ekki bara tæknilega gölluð. Þau eru auðvitað líka hugmyndafræðilega óásættanleg. Menn sjá það bara strax þegar menn lesa greinargerð, athugasemdir með frumvarpinu, með lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, hversu gölluð þau eru.

Mjög lítið var fjallað um hugtakið auðlindarentu í umræðu um frumvarpið hingað til en þó var nefnt, heyrði ég, að menn töldu það vera hugtak sem hönd á festi, en það er alls ekki svoleiðis. Auðlindarentan er ekki hugtak sem hönd á festir og það kemur meira að segja fram í athugasemdum með lögum um veiðigjöld. Það kemur berlega fram. Þar er sérstaklega tiltekið að mismunandi aðferðum er beitt við að finna auðlindarentuna, mismunandi aðferðir sem liggja til grundvallar og eru tilteknar í athugasemdum með lögunum ýmsar aðferðir. Það er munur á rentu, og það er líka tiltekið í athugasemdum með lögunum, eftir árum, eftir veiðum, eftir skipategundum, vinnsluaðferðum. Auðlindarentan er ekki nokkuð sem hönd á festir.

Þá ber sérfræðingum ekki heldur saman um hversu há rentan hefur verið undanfarin ár. Mönnum ber náttúrlega alls ekki saman um hver auðlindarentan er fyrirhuguð næstu ár en þótt menn líti til baka og hafi allar tölur tiltækar ber sérfræðingum heldur ekki saman um hver auðlindarentan hafi verið undanfarin ár. Það er líka tiltekið í athugasemdum með lögum nr. 74/2012, og skeikar þar nokkru, allt frá 20 upp í 55 eða 60 milljarða. Er ekki einkennilegt að menn geti ekki sett fram ákveðna tölu ef auðlindarentan er svona hlutlægt hugtak?

Þá er líka óásættanlegt í hugmyndafræðinni um veiðigjöldin að það er einhvers konar ójafnræði á milli útgerða, á milli atvinnugreina í sjávarútvegi. Það er bara gert ráð fyrir því. Það sem er helst til umræðu núna er mismunurinn á botnfisksveiðum og uppsjávarfiskveiðum. Er það ásættanlegt? Og er það ásættanlegt að það skuli vera gert með þeim rökum sem fram koma í athugasemdum með lögum um veiðigjöld þar sem segir að skattheimtan þurfi að vera sveigjanleg? Hún þarf að vera sveigjanleg og tekur breytingum frá ári til árs. Er það ásættanleg skattheimta? Er það það umhverfi sem menn vilja búa atvinnulífinu og einstaklingum? Ég tel það ekki ásættanlegt.

Það er svo margt annað sem er athugavert í sjálfum lögunum um veiðigjöldin. Ég ætla ekki að vera með langa ræðu að þessu sinni um þetta atriði enda kemur frumvarpið til umræðu í nefndum, en öll hugtökin í lögum um veiðigjöld, þau hugtök sem þar eru notuð, geta ekki verið grundvöllur að skattlagningu. Rekstrarafgangur í hefðbundnum skilningi virðist vera notað þar sem hugtak sem menn ætla að byggja einhvern rétt eða einhverjar skyldur manna á. Eðlileg ávöxtunarkrafa — allt eru þetta óútfært, óútskýrð hugtök.

Virðulegi forseti. Ég gat ekki látið hjá líða að taka til máls þegar á þessu stigi málsins, við afgreiðslu þessa máls. Í ljósi þess að veiðigjaldið er ekki hægt að reikna út með þeim hætti sem fyrirhugað var, hefði þá ekki verið eðlilegast að framlengja bráðabirgðaákvæði laga um veiðigjald í stað þess að setja það á núna? Nú, eða það sem ég hefði auðvitað viljað sjá, að fella veiðigjöld úr gildi, taka málið upp aftur með einhverjum skynsamlegum hætti, standi vilji til þess að hafa þessa skattheimtu og það verði lögð í það einhver vinna sem greinilega var ekki gert á sínum tíma þegar lög um veiðigjöld voru sett.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.