142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, með síðari breytingum. Í því felst í meginatriðum að tekin verði af öll tvímæli um að Hagstofunni sé heimilt í þágu hagskýrslugerðar að óska eftir upplýsingum af fjárhagslegum toga frá fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri um viðskipti þeirra við þriðja aðila. Frumvarpið er einn liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimila sem rædd var á Alþingi í formi þingsályktunartillögu.

Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 beindist athygli stjórnvalda m.a. að skuldavanda heimilanna. Á 138. löggjafarþingi og 139. löggjafarþingi voru lögð fram frumvörp efnahags- og viðskiptaráðherra til laga um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila. Þessi frumvörp hlutu ekki brautargengi og um mitt ár 2011 var settur á stofn vinnuhópur Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og efnahags- og viðskiptaráðuneytis til að huga að því hvernig að þeim málum skyldi staðið. Lagði vinnuhópurinn fram tillögu um að Hagstofunni yrði falið það verkefni að safna og vinna tölfræði um skuldir heimila og fyrirtækja. Með samþykkt ríkisstjórnar í október 2011 og með varanlegri fjárveitingu til Hagstofu Íslands var stofnuninni falið að vinna reglulega nýja tölfræði um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja og birta ársfjórðungslega. Það verkefni hefur verið í undirbúningi, en fjármálastofnanir hafa lagst gegn því að afhenda nauðsynlegar upplýsingar nema lagaheimildir séu ótvíræðar. Úr því er bætt með frumvarpi þessu.

Rökin fyrir því að ráðast í þetta verkefni voru m.a. tíunduð svo í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 2011:

„1. Í dag fer engin stofnun með það hlutverk að afla ítarlegra upplýsinga um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja í landinu. Það skortir því verulega á að rétt mynd fáist af samtímastöðu og þróun þessara þátta.

2. Í dag hefur engin opinber stofnun yfirsýn yfir upplýsingar um vanskil svo dæmi sé tekið. Ekki er því hægt að bera saman ólík tímabil nema að mjög litlu leyti.

3. Mikil hagræðing er af því að ein stofnun safni gögnum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

4. Grunngögn um flokkun fyrirtækja sem Hagstofa Íslands, Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands nota í dag eru ekki þau sömu sem getur leitt til þess að mismunandi niðurstaða fáist við úrvinnslu gagna. Ólíkar niðurstöður valda oftar en ekki misskilningi, rangtúlkun og vantrausti meðal almennings.

5. Upplýsingar um fjárhagsstöðu heimila eru ein af forsendum þess að hægt sé að greina húsnæðismarkaðinn og þá sem eru í vanda á hverjum tíma.“

Virðulegi forseti. Þessi rök eiga enn við og er í raun synd að ekki skuli hafa tekist að afla þessara gagna fyrr, en betra er seint en aldrei. Núverandi ríkisstjórn hefur sett úrlausn í skuldamálum heimilanna á oddinn. Framlagning þessa frumvarps er einn liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar á því sviði. Þannig verður lagður grundvöllur að stefnumótun stjórnvalda og mati á árangri aðgerða á sviði skulda, greiðslubyrði og greiðsluvanda. Þessar upplýsingar munu jafnframt nýtast í mun víðara samhengi.

Þær tölfræðilegu upplýsingar sem til stendur að afla eiga að gefa skýra heildarmynd af stöðu og þróun skulda, greiðslubyrði og greiðsluvanda heimila. Gögnin verða auðguð, eins og það er kallað, með öðrum tölfræðigögnum Hagstofunnar, svo sem upplýsingum um tekjur, eignir, bætur o.fl., sem Hagstofan safnar fyrir úrvinnslu annarra hagtalna. Verkefnið fellur vel að hlutverki Hagstofu Íslands og verður söfnun og birting gagna um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja hliðstæð öðrum reglubundnum verkefnum Hagstofunnar. Þetta frumvarp styður því við marga aðra liði í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og færir okkur þann tölfræðilega grunn sem vantar til að leggja mat á mismunandi leiðir og hvernig þær nýtast heimilunum.

Ljóst er að fáar eða engar þjóðir hafa enn ráðist í gerð jafn viðamikilla tölfræðiupplýsinga á þessu sviði og hér er áformað. Þá er til þess að líta að skuldavandi heimilanna er óvíða meiri. Skuldir heimilanna jukust hratt fyrir hrun og sú skuldasöfnun var óvenjuleg í sögulegu íslensku samhengi, en einnig í alþjóðlegu samhengi. Skuldirnar jukust síðan stórum skrefum þegar verðbólgan skall á eftir fall krónunnar og enn er glímt við það verkefni að leysa úr vanda heimilanna á þessu sviði og mun verða um einhver ár enn.

Alþjóðastofnanir hafa einnig hvatt til að tekin sé saman áreiðanleg tölfræði á þessu sviði til að leggja grunn að opinberri stefnumótun.

Vegna þess að hér er um söfnun persónuupplýsinga að ræða sem felur í sér visst inngrip í friðhelgi einkalífs sem nýtur stjórnarskrárverndar þarf að gæta mjög vel að öryggi þeirra upplýsinga sem safnað er og sérstaklega að þær komist ekki í hendur annarra óviðkomandi aðila. Engin stofnun er betur til þess fallin en Hagstofa Íslands sem nýtur óskoraðs trausts á þessu sviði. Samt sem áður þarf að skoða hvort aðrar og vægari leiðir hefðu verið færar. Hagstofa Íslands hefur nú þegar aðgang að upplýsingum um fjármál einstaklinga og fyrirtækja frá skattyfirvöldum. Það hefur hins vegar komið í ljós að þau gögn eru sniðin að þörfum skattyfirvalda vegna álagningar skatta og gefa ágæta heildarmynd af stöðunni á hverju ári, en eru ekki nógu ítarleg eða tímanleg til þess að þau nýtist að fullu til að fylgjast stöðugt með þróuninni.

Nýja verkefnið sem frumvarpið rennir stoðum undir gefur hins vegar trúverðugar og tímanlegar upplýsingar, þ.e. ársfjórðungslega, um stöðu heimila og fyrirtækja á þessu sviði. Þarna verður því til nýr efnahagsvísir sem gefur tímanlega til kynna ef eitthvað er að fara úrskeiðis í þessum málum.

Þess verður eigi að síður freistað að samræma upplýsingagjöf til opinberra aðila til að koma í veg fyrir að fjármálastofnanir þurfi að láta sömu upplýsingarnar í té oftar en einu sinni.

Aðrar leiðir til að afla nauðsynlegra gagna eins og spurningakannanir sem beint yrði að fyrirtækjum og einstaklingum mundu þýða aukna stjórnsýslubyrði fyrir viðkomandi og gögnin yrðu aldrei jafn áreiðanleg og tæmandi, auk þess að sú leið yrði mun dýrari og tímafrekari.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjármálafyrirtæki og lánastofnanir afhendi Hagstofunni ítarlegar upplýsingar um öll lán í þeirra eigu, hvort sem um er að ræða einstaklingslán eða fyrirtækjalán, þar með taldar upplýsingar um skuldara, en þær þarf til að geta unnið tölfræði um lántakendur.

Stefnt er að birtingu ársfjórðungsniðurstöðum ríflega tveimur mánuðum eftir lok hvers ársfjórðungs sem er sambærilegt við birtingu á niðurstöðum ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga. Birtar verða hagtölur um stöðu og þróun skulda og eigna, greiðslubyrði og greiðsluvanda, annars vegar fyrir heimili eftir heimilisgerð, tekjum og eignum og hins vegar fyrir fyrirtæki eftir rekstrarformi, stærð og atvinnustarfsemi.

Á þessari stundu er ekki hægt að segja nákvæmlega fyrir um hvenær tölfræðilegu upplýsingarnar verða tilbúnar til birtingar, en breytulýsing á þeim gögnum sem þarf að afla hefur staðið yfir í góðri samvinnu við banka og fjármálastofnanir og er langt komin. Auk þess hefur verið unnið að öðrum undirbúningi við sendingu og móttöku slíkra gagna á Hagstofunni. Verður þeirri vinnu flýtt eftir megni verði frumvarpið að lögum.

Í athugasemdum með frumvarpinu er vikið að samráði sem átti sér stað í aðdraganda þess. Þótt bankamenn sjái margir kostina í áreiðanlegum tölfræðiupplýsingum um skuldamál heimila og fyrirtækja, verður ekki dul dregin á að þeir, eins og svo margir aðrir, hafa áhyggjur af bankaleyndinni. Henni er vikið til hliðar í vissum skilningi, þ.e. að fjármálastofnanir munu samkvæmt frumvarpinu mega afhenda Hagstofunni persónugreinanlegar upplýsingar. Gagnvart viðskiptavinum bankanna ætti þetta hins vegar ekki að valda of miklum áhyggjum, því tryggt er í lögum um Hagstofuna og í þessu frumvarpi sérstaklega að slíkar upplýsingar geta ekki farið út fyrir veggi Hagstofunnar.

Þar innan húss er einnig mjög vel gætt að því að ekki sé unnið með kennitölur eða önnur augljós persónuauðkenni, heldur er hverri kennitölu breytt í einkvæmt númer, en það er hins vegar ekki hægt að afmá með öllu nauðsynleg auðkenni, þ.e. einkvæma númerið vísar til tiltekins einstaklings eða fyrirtækis. Þetta er nauðsynlegt svo hægt sé að tengja upplýsingar frá bönkum við önnur gögn eins og um eignir fólks sem liggja fyrir hjá skattyfirvöldum.

Lykilatriði er eigi að síður að upplýsingar sem hægt er að rekja til einstaklinga og einstakra fyrirtækja muni aldrei fara út fyrir dyr Hagstofunnar og verða í raun heldur ekki aðgengilegar starfsfólki hennar nema eingöngu þeim sérfræðingum sem vinna við villuprófanir. Þetta er sá þáttur sem ég tel að þurfi að koma til hvað mestrar skoðunar í nefndinni. Fram hefur komið í opinberri umræðu að viðeigandi stofnanir hafi þegar af eigin frumkvæði hafið skoðun á frumvarpinu og þess er því vonandi að vænta að í vinnu nefndarinnar komi fram öll helstu sjónarmið sem taka verður tillit til í þessu samhengi. Mér finnst að alls ekki megi útiloka að aðlaga þurfi frumvarpið að ábendingum sem fram koma um þessi efni. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess hversu efnið er viðkvæmt og varðar mikilvæg réttindi fólks í landinu.

Undir þessu samráði var hvatt til þess að það yrði skoðað hvort heimildir til að afla viðkomandi upplýsinga yrðu tímabundnar. Það er brugðist við þeirri ábendingu með því að gert er ráð fyrir endurskoðun lagaheimildanna og verkefnisins í heild fyrir árslok 2017, en það má jafnframt gera ráð fyrir að sú þingnefnd sem fær málið til meðferðar skoði þetta atriði einnig sérstaklega.

Loks má vænta þess að Persónuvernd fari gaumgæfilega yfir frumvarpið og að þingnefndin skoði vel ábendingar hennar. Eins og ég hef hér komið inn á liggur fyrir að Persónuvernd hefur þegar tekið það upp að eigin frumkvæði að skoða málið og er ekki við öðru að búast en að nefndin geti átt gott samstarf við Persónuvernd.

Lagt er til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og efnahags- og viðskiptanefndar, en ég geri ráð fyrir því að málið gangi til umsagnar í öðrum viðeigandi nefndum í þinginu.