142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. starfandi forsætisráðherra fyrir að hafa mælt fyrir þessu máli. Ég held að allir átti sig á tilgangi þess og því sem hér er að baki. Það eru nokkur atriði sem ég tel samt ástæðu til þess að vekja athygli á og hugsanlega spyrja hæstv. ráðherra út í.

Í fyrsta lagi lagði hæstv. ráðherra til í lok ræðu sinnar að málinu yrði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar en væntanlega yrði leitað umsagnar allsherjar- og menntamálanefndar. Það kemur mér mjög á óvart. Þetta er málefni sem eðli málsins samkvæmt hlýtur að heyra undir allsherjar- og menntamálanefnd þannig að ég vil mælast til þess að það verði eitthvað skoðað áður en umræðunni lýkur hvert rétt sé að vísa málinu.

Ég vil líka nefna sérstaklega persónuverndarsjónarmiðin. Það er rakið í greinargerð með frumvarpinu og meðal annars í samhengi við ákvæði stjórnarskrárinnar, 71. gr. hennar um friðhelgi einkalífs manna. Mér finnst í greinargerð með frumvarpinu mjög lítillega farið yfir hvernig komist er að þeirri niðurstöðu sem segir hér, með leyfi forseta:

„Að öllu þessu virtu verður að telja að frumvarpið stríði ekki gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar.“

Þetta er atriði sem ég tel að verði að skoða mjög gaumgæfilega á vettvangi þingnefndar. Meðal annars af þeim sökum finnst mér eðlilegt að allsherjar- og menntamálanefnd fjalli um málið. Þetta er í raun og veru ekki rökstutt hér með öðrum hætti en þeim að vísað er í eldra mál sem varðaði gagnagrunn á heilbrigðissviði og umfjöllun Persónuverndar um það. Mér finnst vanta dálítið í þessa umfjöllun.

Við höfum verið að ræða annað mál sem varðar veiðigjöldin. Þar hefur verið kvartað yfir því að það vanti lagaheimildir til þess að safna upplýsingum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji eitthvað því til fyrirstöðu að skotið sé lagastoð undir heimildir til þess að safna upplýsingum um veiðigjöldin með sama hætti og er gert hér að því er varðar þetta frumvarp til þess að (Forseti hringir.) safna upplýsingum um fjármál einstaklinga.