142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var á síðasta þingi sem við fórum að hluta yfir sambærilega umræðu og hv. þingmaður kemur inn á, þ.e. varðandi persónuverndina þegar Seðlabankanum var sérstaklega falið að taka út stöðu heimilanna. Ef minnið er ekki að bregðast mér var gengið þannig frá því máli þegar upp var staðið að öllum gögnum sem safnað hafði verið var eytt í kjölfarið. Við getum eflaust sótt einhvern fróðleik í þá umræðu sem átti sér stað þar þegar við metum hvernig best væri að standa að þessu markmiði hér, en eins og málið ber með sér er það komið fram til þess að fá gleggri, betri og raunsannari mynd af skuldastöðu heimila og fyrirtækja en átt hefur við fram til þessa. Það er út af fyrir sig mjög mikilvægur tilgangur, til þess að geta brugðist við í tíma. Vandinn liggur í því að þarna getur sá góði tilgangur stangast á við önnur mikilsverð réttindi.

Þess vegna geri ég það að umtalsefni í framsöguræðu minni að þau atriði þurfi að koma til sérstakrar skoðunar. Þau atriði heyra sannarlega undir málefnasvið allsherjar- og menntamálanefndar, nema hvað málefni Hagstofunnar, svona heilt yfir, kannski frekar undir þá nefnd sem ég lagði til að fengi málið til umfjöllunar. Ég er hins vegar alveg tilbúinn til þess að hlusta á sjónarmið um hvar málið eigi best heima og eins trúi ég því að nefndir í þinginu (Forseti hringir.) geti átt gott samstarf eftir því sem málið krefst samstarfs um skoðun einstakra málefna.

Varðandi veiðigjaldið fer það eftir því hvað menn vilja gera með það hversu (Forseti hringir.) miklar upplýsingar þarf að ná í.