142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:41]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að til standi að fá góðar upplýsingar áður en til ákvörðunartöku kemur. Það er mjög mikilvægt fyrir þingið og almennt fyrir góða vinnu að byggt sé á traustum og góðum upplýsingum. Það eru tveir punktar við þetta frumvarp sem mig langar til að setja smáspurningarmerki við. Annars vegar eru, eins og aðrir þingmenn á undan hafa minnst á, persónuupplýsingarnar og öryggi upplýsinganna út frá persónuverndarsjónarmiði.

Ég tek að mörgu leyti undir ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar hér á undan, fátt skiptir jafn miklu máli og friðhelgi einkalífsins og það þarf að vera algjörlega tryggt þegar sett er af stað vinna sem safnar saman upplýsingum, eins og hér stendur til, að hún fari eftir öllum reglum um persónuvernd og órekjanleika upplýsinganna, að það sé skýr umgjörð um það hvernig að því sé staðið og að ekki komi til möguleg slys um að upplýsingar eða hluti upplýsinga leki. Þetta tel ég mjög mikilvægt og þess vegna vil ég vísa því til þeirra nefnda sem taka frumvarpið til umfjöllunar að það sé sérstaklega horft á þetta. Ekki bara skiptir þetta máli upp á að viðhalda og tryggja friðhelgi einkalífs þegnanna heldur skiptir þetta líka öllu máli upp á það traust sem til vinnunnar verður borið og þar af leiðandi til upplýsinganna sem út úr vinnunni koma.

Hinn punkturinn sem ég vil benda á er að mér þykir frekar óskýrt hvar ráðstöfun endar þar sem ekki kemur fram að þetta sé tímabundin ráðstöfun. Það er minnst á það í frumvarpinu en það er ekki skýrt hvort þetta sé tímabundin ráðstöfun. Kannski er þetta upphafið að ótímabundinni ráðstöfun og ef svo væri skiptir þeim mun meira máli að utanumhaldið sé sterkara og að stofnað sé utan um þetta sterkt og öruggt apparat sem væri með öruggar og gagnsæjar vinnureglur sem hægt væri að hefja yfir allan vafa.

Það hefur verið vandamál á Íslandi, m.a. í þinginu, að stundum höfum við glímt við skort á skýrum upplýsingum eins og kom fram í ræðu þingmanns áðan. Einnig hefur viljað brenna við að upplýsingar hafa verið vefengdar. Það virðist vera gert reglulega og þá jafnvel án mjög sterks rökstuðnings. Ég tel að hluti af því að við höfum tamið okkur að vantreysta upplýsingum sé að við höfum ekki haft nógu gagnsætt utanumhald um hvernig þeirra er aflað og hvernig farið með þær. Það skiptir mjög miklu máli. Það skiptir miklu máli í störfum þingsins og í störfum hæstv. ríkisstjórnar að sé verið að safna upplýsingum og vinna út frá þeim sé fullt traust borið til þeirra upplýsinga, bæði hjá þeim sem eru að vinna með þær og líka úti í samfélaginu.