142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:48]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu er um margt merkilegt. Það verður nú ekki annað sagt en að gengið sé mjög langt í því að afnema það sem menn hafa viljað telja að sé eðlilegur trúnaður um persónuleg málefni einstaklinga í viðskiptum sínum við fjármálafyrirtæki. Einhverjir mundu kannski telja að frumvarpið hefði það í för með sér að þessum persónulega trúnaði væri fyrirgert með öllu þannig að þetta er ekki lítið mál í sjálfu sér.

Nokkuð hefur verið fjallað um tilgang frumvarpsins. Hæstv. fjármálaráðherra, sem mælir fyrir frumvarpinu, nefndi að þetta væri ekki einskiptisaðgerð, þetta ætti eingöngu að verða til þess að liðka til fyrir aðgerðum í því ástandi sem nú er uppi. Mér finnst hins vegar ætlunin með þessu frekar vera sú að skapa vettvang til þess að safna þessum persónulegu upplýsingum oftar og lengra fram í tímann. Mér finnst nokkuð skorta á nánari skýringu á tilgangi slíkrar söfnunar. Söfnun sem slík getur ekki verið tilgangur í sjálfu sér. Ég velti því fyrir mér hvort það þýði að menn horfi til framtíðar um ítrekaðar sértækar aðgerðir, hvort það sé hugsunin. Í öllu falli tel ég frumvarpið svolítið vanbúið að því leyti að tilgangur þess er ekki nógu skýr.

Einhverjir gætu sagt sem svo, eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu, að þessar upplýsingar um persónuleg málefni sem lagt er til að trúnaður ríki ekki um, séu ekki viðkvæmar upplýsingar. Í athugasemdum með frumvarpinu er vikið að dómi Hæstaréttar í máli 151/2003, sem varðaði gagnagrunn á heilbrigðissviði, en í málinu kvað Hæstiréttur upp þann dóm að upplýsingar sem þar um ræddi væru viðkvæmar persónuupplýsingar sem menn gætu ekki safnað án samþykkis viðkomandi einstaklinga.

Í athugasemdum með frumvarpinu er fullyrt að þær upplýsingar af fjárhagslegum toga sem frumvarpið tekur til sé ekki jafn viðkvæmar og þær heilsufarsupplýsingar sem lögin um gagnagrunn á heilbrigðissviði taka til. Það finnst mér undarleg fullyrðing, í öllu falli fullyrðing sem ég get ekki tekið undir og sem löggjafinn hefur ekki tekið undir. Í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, er sérstakt ákvæði um bankaleynd, það er 58. gr. Í lögum um persónuvernd, nr. 77/2000, er líka almennt ákvæði um slíkt.

Í athugasemdum við lög um fjármálafyrirtæki kemur skýrt fram að löggjafinn hefur sjálfur lýst því svo að þær upplýsingar sem fjármálafyrirtæki hafa undir höndum séu viðkvæmar persónuupplýsingar, þær geti varðað fjármál einstaklinga en líka persónuleg málefni. Þær upplýsingar sem bankar hafa yfir að búa um skuldastöðu manna eru ekki bara upplýsingar um fjárhagsleg málefni, það eru líka upplýsingar um persónuleg málefni. Um þær upplýsingar gildir ríkur trúnaður að lögum, það er hugsað einstaklingnum sjálfum til hagsbóta. Bankaleyndin er ekki fyrir fjármálastofnanirnar. Bankaleyndin er sett til hagsbóta til handa einstaklingunum og viðskiptavinum fjármálafyrirtækja.

Dómaframkvæmd hefur hins vegar ítrekað viðurkennt rétt eftirlitsaðila til þess að fá upplýsingar eða að fá þessum trúnaði aflétt í sérstökum tilgangi, þ.e. í þeim tilgangi að sinna eftirliti. En um það er ekki að ræða í þessu frumvarpi. Þess vegna geld ég nokkurn varhuga við frumvarpinu.

Ég ætla ekki á þessu stigi að mótmæla því alfarið að tilgangurinn með frumvarpinu sé ekki góður og að því sé ekki ætlað að koma til móts við einhvers konar aðgerðir sem fyrirhugaðar eru eða þess vegna þjóðaröryggis. Hvað veit ég?

Ég ætla hins vegar að rifja það upp að á árinu 2009 veittu allar fjármálastofnanir landsins Seðlabanka Íslands dulkóðaðar upplýsingar um skuldastöðu heimila og stöðu, þar með talið stöðu einstaklinga, fjármálaupplýsingar dulkóðaðar með sérstökum hætti að ósk Seðlabankans og stjórnvalda á þeim tíma. Það var gert og Seðlabankinn fékk þessar upplýsingar, hann vann eitthvað úr þeim en eyddi þeim svo strax eftir það. Það var gert með ákveðnum hætti og í samráði við þá sem veittu upplýsingarnar. Það var gert á þeim tíma, árið 2009, til þess að meta stöðu heimilanna og einstaklinganna í landinu á þeim tíma. Hvað kom út úr því eða hvort eitthvað var unnið með niðurstöðurnar hef ég ekki hugmynd um, það er svo sem rannsóknarefni út af fyrir sig hvort það hafði eitthvað að segja. En ég mundi vilja fá að vita hvort hæstv. ráðherra viti til þess hvort leitað hafi verið aftur til fjármálafyrirtækjanna í þessum tilgangi, hvort ekki séu til aðrar en vægari leiðir ef markmiðið er að koma á framfæri einhvers konar upplýsingum um skuldastöðu heimila, einstaklinga og fyrirtækja. Með öðrum orðum; hvort ekki megi ná þessu markmiði með meðalhóf að leiðarljósi.

Ég velti því líka fyrir mér, mér finnst það óljóst í frumvarpinu, hvort um er að ræða dulkóðaðar upplýsingar eða ekki. Varðandi frumvarpið sjálft, þ.e. frumvarpið sem kann að verða að lögum, fæ ég ekki séð að það verði að bankarnir eða fjármálastofnanirnar afhendi Hagstofunni dulkóðaðar upplýsingar, heldur þvert á móti bara upplýsingar eins og þær koma af kúnni, eins og sagt er. Í greinargerð með frumvarpinu er hins vegar vikið að flutningi gagna á tölfræðivinnslu þannig að ekki verði unnið með kennitölur heldur einkvæm einkenni og því verði persónuupplýsingar órekjanlegar þar sem persónuauðkenni verða afmáð eða dulkóðuð. Það er ekki hægt að lesa út úr frumvarpinu sjálfu. Verði frumvarpið óbreytt að lögum fæ ég ekki séð að dulkóðaðar upplýsingar verði fluttar til Hagstofunnar, en það kann að vera misskilningur minn. Verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

Þetta er frumvarp til breytinga á lögum um Hagstofu Íslands og gengur út á það að Hagstofan fái þessar upplýsingar. Allt að einu er í stuttum kafla í frumvarpinu vikið að gagnasöfnun Seðlabankans og þar eru vangaveltur um hvort verið gæti hentugt að safna öllum þeim upplýsingum sem fjármálafyrirtæki eru skyldug til þess að veita inn um einu og sömu gáttina, gæti slíkt varðað hluta af gagnasöfnun Seðlabankans. Þess vegna væri fróðlegt að vita, hvort sem það væri á þessu stigi eða síðar í ferli málsins, hvort Seðlabankanum sé ætlað eitthvert hlutverk í þessari gagnasöfnun.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að það sem mér finnst skipta máli hér er að það liggi skýrt fyrir hver tilgangur þessa frumvarps er, hinn raunverulegi tilgangur. Ég vænti þess að því verði velt upp sérstaklega og fjallað um það ítarlega í nefnd hvort ekki megi ná tilgangi eða markmiðum frumvarpsins með öðrum og vægari hætti þar sem trúnaðarsamband einstaklinga við fjármálastofnanir um fjárhagsmálefni einstaklinga og aðrar persónulegar upplýsingar verði virt.