142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:59]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Hér kemur til umfjöllunar dálítið stórt málefni og kannski stærra en menn gera sér í hugarlund vegna þess að verið er að safna saman öllum fjárhagslegum upplýsingum um heila þjóð. Það er verið að safna saman öllum fjárhagslegum málefnum um skuldir einstaklinga og væntanlega eignir þeirra líka, því að þarna þarf að raða saman skuldum og eignum til að nálgast það vandamál sem er til umfjöllunar, sem ég reikna með að sé greiðsluvandi heimila. Nú vill svo til að bankaleynd nýtur ekki mikillar virðingar í þessu landi. Ég hef reynt það á sjálfum mér. Ég hef reynt það í ýmsum málefnum og ég hef til dæmis reynt það í umfjöllun fjölmiðla þar sem fjölmiðlar reyna að nálgast ýmsar fjárhagslegar upplýsingar varðandi einstaklinga, ekki til þess að vinna úr þeim með einhverjum vísindalegum hætti heldur til þess að velta einstaklingum upp úr annarlegum sjónarmiðum.

Ég vil meina að bankaleyndin sé á engan hátt frábrugðin þeirri leynd sem er lögð á heilbrigðisstéttir, þ.e. rekja má bankaleyndina allar götur aftur til Hippókratesar, það skuli gæta alls trúnaðar gagnvart skjólstæðingum í banka, gagnvart sjúklingi, en í einni útgáfu Hippókratesareiðs sem ég hef unnið með segir „nema alþjóðaheill krefjist“. Þá má kannski vísa til þess sem hv. þm. Sigríður Á. Andersen vísaði til varðandi dóma þar sem eftirlitsaðilar geta aflað upplýsinga um fjárhagsleg málefni.

Í þessu máli er væntanlega verið að reyna að nálgast einn vanda sem heitir greiðsluvandi heimila. Ég velti því fyrir mér til hvers í ósköpunum er verið að safna inn í þennan gagnagrunn fjárhagslegum upplýsingum um þau heimili sem eiga ekki við greiðsluvanda að stríða. Það getur varla verið til þess að nálgast vanda. Hvað er það sem kemur fram í þeirri upplýsingasöfnun umfram það sem kemur fram í hinum árlegu skilum til ríkisskattstjóra, í framtölum þar sem allar fjárhagslegar upplýsingar koma fram? Það kann að vera að hér eigi að vinna einhverjar ársfjórðungslegar upplýsingar, en hvernig þær upplýsingar verða þarf, að mínu viti, að koma aðeins skýrar fram, hvernig upplýsingarnar eiga að verða sem á að vinna á ársfjórðungslegum grunni.

Það vill svo til að á þeim 100 árum sem eru liðin frá stofnun Hagstofu hefur hún nánast aldrei fjallað um lánamarkaðinn. Lánamarkaðurinn, þ.e. tölfræði lánamarkaðarins, hefur algerlega verið fyrir utan Hagstofuna þannig að hér er algerlega nýr vinkill á hana. Lánamarkaðurinn hefur alfarið verið unninn af Seðlabanka síðastliðin 50 ár og af forverum hans þar á undan. Ég vil alla vega fá gleggri upplýsingar um af hverju á að færa þetta inn í Hagstofu þegar lánamarkaðurinn hefur verið unninn annars staðar.

Svo ég fari aðeins til baka vísaði ég til fjárhagslegra upplýsinga þeirra sem ekki eiga í vanda og af hverju. Umboðsmaður skuldara er hvergi nefndur í þessu. Ég vænti þess að verið sé að nálgast vandamálið sem er greiðsluvandi heimila og ég ætla ekki að draga úr honum.

Það gerðist hér á árunum frá 1980–2008 að skuldir heimila jukust úr 25% af ráðstöfunartekjum í 250% af ráðstöfunartekjum, á þessum 27–28 árum. Einhvern tímann reiknaði ég út að skuldir heimila umfram ráðstöfunartekjur jukust um 8% á ári á þessum 27–28 árum. Sú aukning var aldrei áhyggjuefni, af hverju hún stafaði. Í stuttu máli má flokka skuldir heimila í nokkra flokka, þ.e. húsnæðisskuldir, skuldir vegna kaupa á lausafé, neysluskuldir, sem verða bara til vegna þess að launin duga ekki fyrir neyslu, og að lokum Lánasjóður íslenskra námsmanna eða námsskuldir. Á móti má flokka þau lán niður í lánin í skilum, lánin í vanskilum, eða sá hluti sem er í vanskilum, greiðslubyrði og svo á einhverjum stað er fjallað um neikvætt eigið fé.

Ég hef oft velt því fyrir mér á undanförnum árum eftir að það varð mikið mál varðandi skuldir heimilanna að einhver heimili eru með neikvætt eigið fé. Ég hef þá skoðun að neikvætt eigið fé heimilanna sé í rauninni ekkert vandamál, ekki eitt og sér. Það er hins vegar orðið vandamál ef greiðslubyrði af lánum er óyfirstíganleg og vanskil hrannast upp. Inni í þessum skuldum sem ég taldi upp áðan eru skuldir við LÍN. Á móti þeim skuldum er eign sem er hvergi skráð í opinberum gögnum, þ.e. menntunin og aflahæfið sem felst í menntuninni.

Ég reikna með því að þetta frumvarp komi til umfjöllunar í nokkrum nefndum og nefndir hafi með sér samvinnu þar um. Ég hef áhyggjur af þeim gríðarlegu fjárhagslegu upplýsingum sem eru til hjá ríkisskattstjóra og í hverjum banka fyrir sig og hægt er að kalla fram í hverjum banka fyrir sig fyrir einn einstakling sem kemur þar til úrlausnar varðandi sinn vanda, einstaklingurinn getur komið inn og samþykkt að allar fjárhagslegar upplýsingar tengdar honum verði lagðar fram.

En hvað erum við að vinna þarna til viðbótar? Hvað heimilin skulda að meðaltali er í sjálfu sér ekki vandamál. Það sem er vandamál er það sem hver og einn einstaklingur hefur í greiðslubyrði umfram það sem hann ræður við. Ég vona að það sé í rauninni það sem á að taka á í þessu, þ.e. hinn eiginlegi greiðsluvandi en ekki tölfræði tölfræðinnar vegna.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni.