142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þær ábendingar sem hafa komið fram, sérstaklega þær sem snúa að viðkvæmari þáttum frumvarpsins og varða friðhelgi einkalífsins og þá þætti sem ég kom inn á í upphafi máls míns sem þyrftu að koma til skoðunar í þingnefnd. Ég held að þetta séu mjög gild sjónarmið og verkefnið í þinginu verður að samtvinna það markmið sem stefnt er að með málinu til þess að við höfum á hverjum tíma betri upplýsingar um skuldastöðuna og fáum þá mikilvægu vísbendingu sem getur falist í henni án þess að ganga að óþörfu, eða þannig að brjóti í bága við lög, inn í friðhelgi einkalífsins.

Þetta er viðkvæmt jafnvægi sem þarf að finna þarna á milli. Kannski er það einmitt út af því sem við erum að ræða þetta mál og það hefur ekki áður verið lögfest, vegna þess að það er ekki alveg auðrataður vegur, það er vandfundið einstigi þarna á milli.

Ég lét þess getið fyrr í andsvörum að eflaust mundi þurfa gott samstarf milli nefnda. Ég hef að athuguðu máli ákveðið að betur fari á því að málið fari til allsherjar- og menntamálanefndar, ekki síst út af þeim lögfræðilegu atriðum sem hafa verið til umræðu. Ég mælist til þess að málið fari þangað til skoðunar milli umræðna.