142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég nefndi hér stuttlega áðan hugsanlegar lagaumbætur til að vinna gegn kynbundnum launamun. Að sjálfsögðu hefur ýmislegt verið gert og unnið á þeim vettvangi á undanförnum árum og til að mynda hafa staða og tæki Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs verið styrkt í lögum. Ég tel mikilvægt að huga enn frekar að þeim málum, hvort hægt sé að ná meiri árangri með umbótum á því sviði.

Ekki er nóg að taka á þessum þáttum í lagaumgjörðinni. Það þarf líka viðhorfsbreytingu í samfélaginu. Því miður hafa ýmsar rannsóknir sýnt að ungir drengir í skólakerfinu hafa jafnvel neikvæðari sýn á jafnrétti kynjanna en þeir sem eru heldur eldri. Þetta er viðfangsefni sem ég tel mikilvægt að vinna að. Við þurfum að vinna að viðhorfsbreytingu. Hún er nauðsynleg í skólakerfinu.

Við sjáum að vísu að fleiri konur en karlar útskrifast úr háskólum hér á landi, umtalsvert fleiri. Ég hygg að í Háskóla Íslands séu þeir sem eru að útskrifast með BA-gráður og jafnvel mastersgráður upp undir 60 eða 67% konur en það skilar sér ekki í minnkuðum launamun og er áhyggjuefni. Ég tel mikilvægt að unnið sé að viðhorfsbreytingum í samfélaginu öllu en ekki síst í skólakerfinu og gagnvart ungum drengjum.

Hér var nefnt að í dag væru 98 ár liðin frá því að konur öðluðust kosningarrétt á Íslandi. Eftir tvö ár verður þess minnst að 100 ár eru liðin frá þeim tíma. Er það þá ekki tilvalið tilefni til að taka höndum saman öll, óháð því hvar við skipum okkur í sveit í stjórnmálum, og taka á þessu samfélagslega meini því að þetta er samfélagslegt mein sem við verðum öll að taka alvarlega og ráða bót á. Ég hvet til þess að við látum tímamótin eftir tvö ár verða eins konar viðmiðun í því efni að hafa ráðið bót á þessu í eitt skipti fyrir öll.