142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:33]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, málshefjanda þessarar umræðu, fyrir innlegg hennar og frumkvæði. Það er við hæfi að ræða þessi mál í dag þar sem 19. júní er helgaður kvenréttindum á Íslandi. Nú þegar tæp 100 ár eru síðan konur fengu fyrst kosningarrétt hefur margt áunnist en því miður eigum við enn langt í land til að launajafnrétti sé náð. Það sem áunnist hefur er að lagatextar og rammi til að vinna eftir er í nokkuð góðu lagi en því miður hefur okkur ekki tekist að koma jafnréttinu á í raun. Meðan við þurfum að taka það fram að fyrirtæki skuldbindi sig til að greiða jöfn laun og sömu kjör fyrir sambærilega frammistöðu og jafn verðmæt störf óháð kyni þá er mikil vinna eftir.

Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram, með leyfi forseta, að endurmeta skuli þær aðferðir sem notaðar hafa verið í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna í þeim tilgangi að bæta árangur á sviði jafnréttismála og vinna gegn launamun kynjanna. Þetta held ég að sé mikilvægur þáttur í jafnréttisumræðunni. Við þurfum líka að skoða málin út frá grunninum, t.d. hvernig við ölum börnin okkar upp. Erum við í raun sú fyrirmynd sem við viljum vera þegar kemur að jafnréttismálum?

Ný ríkisstjórn leggur áherslu á jafnréttismál og hefur þingflokkur Framsóknarflokksins þegar endurskoðað kynjaskiptingu í nefndum hjá sér. Lítum líka í eigin barm, leggjum okkur fram og stöndum öll saman um að taka á þessu þjóðfélagsmeini fyrir börnin okkar.