142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mikilvægur hluti af löggjafarstarfinu fer fram í nefndum og er mikilvægt að kjósendur hafi aðgang að því að fylgjast með þeim hluta þingstarfsins. Þannig fær almenningur raunverulega innsýn í störf Alþingis auk þess sem slík opnun er mikilvægt aðhald fyrir þingmenn og mundi að öllum líkindum styrkja þingið gagnvart ráðherraræðinu.

Í ljósi umræðu undanfarinna daga má velta því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að opna nefndarfundi enn frekar en verið hefur. Mikil tortryggni ríkir gagnvart því máli sem veiðigjöldin eru og umræðu um þau og fólk hefur stórar áhyggjur af hagsmunatengslum. Um gríðarlega hagsmuni er að ræða í þessu stóra og mikla máli, atvinnugreinin stór og margir sem eiga hagsmuna að gæta.

Almenningur á kröfu á því að ekkert sé dregið undan og umræðan á að fara fram fyrir opnum tjöldum. Það eru vissulega annmarkar á því á stundum að vera með fundi fyrir opnum tjöldum. En til að allir þingmenn geti sagt að þeir hafi ekkert að fela, þeir séu ekki að ganga hagsmuna eins aðila umfram annan, tel ég það þinginu fyrir bestu að umræða um þessi mál fari fram fyrir opnum tjöldum. Og ég treysti því að það verði gert. Engin ástæða er til að hafa þann fund sem fram fer í atvinnuveganefnd ekki opinn.

Ég skora á hv. formann atvinnuveganefndar að hafa fundina sem fram undan eru um þessi mál fyrir opnum tjöldum.