142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mér þótti athyglisvert að heyra orð hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar áðan um að bæta þyrfti lagasetningu á Alþingi, ég tek heils hugar og hjartanlega undir það. Nú er í meðförum atvinnumálanefndar frumvarp sem er til þess fallið, verði það að lögum, að bjarga klúðri síðustu ríkisstjórnar varðandi sérstakt veiðigjald. Það er sorglegt til þess að vita að 27 þús. mætir Íslendingar skuli nota lýðræðislegan rétt sinn og áhuga á samfélagsmálum til að skrifa undir áskorun um að núverandi lög verði framlengd óbreytt og verði þannig til þess að ekkert sérstakt veiðigjald verði lagt á útgerðina á næsta ári. Lögin sem um ræðir eru þannig vaxin að ekki er hægt að innheimta veiðigjöld samkvæmt þeim. Þetta hefur komið kirfilega fram í umræðu og þetta kemur kirfilega fram í athugasemdum með þessu sama frumvarpi.

Atvinnuveganefnd vinnur að því hörðum höndum að fara vel yfir þetta mál, kalla til sín fjölda gesta og stefnir að því að málsmeðferðin verði hin vandaðasta. Það kann vel að vera að á einhverjum tíma henti það — og ég held að það væri fagnaðarefni — að fundir nefndarinnar verði opnir til þess að hægt sé að skýra fyrir almenningi í landinu hvað gerist ef þessi lög standa óbreytt. Ég held að það væri mikið þarfaverk. Ég tek undir það að æskilegt væri að einhverjir af fundum atvinnuveganefndar verði opnir til að leiðrétta þann misskilning þó ekki sé til annars.

Herra forseti. Ég segi aftur: Ég tek undir það með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að hér þarf að vanda til verka. Þess vegna skulum við líka horfast í augu við það þegar við höfum klúðrað málum. Við skulum reyna að gera það besta úr því og láta það verða okkur víti til varnaðar.