142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir brýninguna. Ég held að hann verði nú að gefa okkur meira en átta daga í þinginu til þess að moka flórinn eftir fyrrverandi ríkisstjórn (Gripið fram í.) og leiðrétta árásir á kjör eldri borgara og öryrkja, loforð sem við ætlum svo sannarlega að efna, sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði ekki síðustu fjögur árin.

En það var ekki það sem ég ætlaði að ræða, ég ætlaði að ræða um svarta atvinnustarfsemi. Það vakti athygli mína í Morgunblaðinu í morgun heilsíðuauglýsing frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og ríkisskattstjóra þar sem varað er við svartri atvinnustarfsemi. Þetta hafði líka komið fram í grein í Morgunblaðinu síðasta þriðjudag sem Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, stéttarfélags á Selfossi, skrifaði og spyr: Hvað er fram undan, hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Hvernig getum við komið í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi sem virðist heldur sækja í sig veðrið þrátt fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í vinnustaðaeftirlit?

Mér brá auðvitað við lestur þessarar greinar og ekki minna þegar á fund okkar í atvinnuveganefnd komu fulltrúar ferðaþjónustunnar og ræddu við okkur um málefni hennar. Í máli þeirra kom fram að á höfuðborgarsvæðinu væru 700 íbúðir leigðar út án leyfis. Samtökin hafa látið taka þetta út á umliðnum árum og upplýsingar liggja fyrir um það. Þetta er á heimasíðum og öllum til gagns en við þurfum að taka á.

Ég tek undir með Halldóru Sigríði Sveinsdóttur þegar ég spyr: Hvað er fram undan, hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessum málum? Ég held að við þurfum öll að bregðast við og koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi sem er allt of mikil.