142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur kærlega fyrir erindi hennar hér áðan um heimilisofbeldi sem mikil þörf er á umræðu um. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna í að koma í veg fyrir og stoppa slíka þróun og snúa til betri vegar.

Mig langar í þessu efni að benda á mjög mikilvægt verkefni sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum og Reykjanesbær hafa tekið upp og önnur sveitarfélög á Suðurnesjum hafa svo komið inn í. Þetta verkefni snýst um að taka mun fastar á heimilisofbeldismálum strax í upphafi og sýna að ofbeldið verði ekki liðið. Verkefnið snýst um að beita þeim úrræðum sem til eru markvissar og auka samstarf lögreglu og félagsmálayfirvalda í þessum málum til að nýta öll þau tæki sem þau hafa til að sporna við þessum vanda. Til að styrkja þolanda hefst eftirfylgni lögreglu og félagsmálayfirvalda innan við viku frá því að atburður gerist þannig að lögregla og félagsmálayfirvöld fara saman og heimsækja þolandann til að úrræðin verði örugglega nýtt. Einnig leggur lögregla mikla áherslu á að rannsókn verði mun ítarlegri strax í upphafi þannig að mál sé ferskt þegar það er rannsakað og tekið fast á því. Í upphafi máls er einnig boðið upp á fræðslu, m.a. fyrir gerendurna, til þess að koma í veg fyrir að þetta haldi áfram.

Í framhaldi af þessu mætti kannski skoða hvort þyngja ætti refsingar, tengsl heimilisofbeldis og alvarlegri brota eins og manndrápa og fleira sem við getum skoðað eða hvort taka ætti upp þríhliða hættumat gagnvart þolanda og geranda og kerfislægt mat þar sem farið yrði í gegnum það hver hættan sé í framhaldinu og hvort öll úrræði hafi mögulega verið nýtt í hverju máli fyrir sig.