142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mjög einkennilegt að stjórnarmeirihlutinn ætli að nýta sér þetta sem skálkaskjól til þess að lækka veiðileyfagjöldin. Veiðigjaldsnefnd, sem hefur verið starfandi, hefur aflað upplýsinga hjá ríkisskattstjóra, Hagstofunni og Fiskistofu. Það kom í ljós að ekki var hægt að fá þær upplýsingar (Gripið fram í: Rétt.) með þeim heimildum sem fyrir eru.

Þá er mjög einfalt að Alþingi breyti lögum sem veita heimild til að nálgast upplýsingarnar hjá ríkisskattstjóra, Hagstofunni og Fiskistofu, svo grunninum að því að hægt sé að leggja veiðigjald á útgerðina sé kippt í lag. Það þarf ekki meira. Það er engin ástæða til þess að nota ferðina til að lækka veiðigjöld á útgerðinni sem er í bullandi gróða.

Menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir tala svona. (Gripið fram í.) Veiðigjaldsnefndin er að störfum, hún hefur leitað allra leiða til að ná þessum upplýsingum fram eins og hlutirnir eru í dag, en það hefur komið í ljós að það reynist erfitt. Ef það þarf lagabreytingu þá þarf einfalda lagabreytingu til að veita stofnunum eins og ríkisskattstjóra eða Hagstofunni heimild til þess að leggja fram umbeðnar upplýsingar um útgerðir í landinu svo að hægt sé að reikna veiðigjaldið.

Það er engin ástæða til þess að lækka veiðigjaldið í leiðinni. Það er hægt að framlengja þetta, (Gripið fram í: Svaraðu spurningunni.)framlengja ákvæðið án þess að lækka það (Gripið fram í.)ef þingheimur er sammála um þetta. Allt fram í apríl á þessu ári lá fyrir að veiðigjaldsnefnd taldi að hún gæti leitað samninga við ríkisskattstjóra, Hagstofu og Fiskistofu til þess að byggja álagningu á. Ef það er ekki hægt eigum við alþingismenn að breyta því en ekki að fela okkur bak við það að nú þurfi að lækka veiðigjald á útgerðinni. Ég held að menn ættu að sjá sóma sinn í því að hugsa um heimilin landinu en ekki útgerðarmenn sem geta greitt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)