142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

ummæli í störfum þingsins og framhald sumarþings.

[11:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt að virða það.

Fyrir hálfum mánuði var yfirlýst að hér ætti að fara fram stutt sumarþing án átakamála með áherslu á fjárhagsstöðu heimilanna. Því átti helst að ljúka á morgun. Þess í stað hefur verið lögð áhersla á átakamál eins og gjafabréf til útgerðarmanna og hér eru enn, degi áður en þinginu átti að ljúka, ekki komin til 1. umr. fjölmörg boðuð stjórnarfrumvörp. Á eftir á að taka á dagskrá með afbrigðum eitthvert mál um Seðlabankann sem lengi hefur legið á skrifborðum í Stjórnarráðinu og þarf ekki að taka inn með neinum afbrigðum.

Boðum okkar í stjórnarandstöðunni um að greiða leið kjarabótum fyrir aldraða og öryrkja með því að taka það á dagskrá með afbrigðum og þeim málum sem lúta að skuldamálum heimilanna virðist hins vegar í engu sinnt. Ég undrast, virðulegur forseti, hvernig haldið er á þinghaldinu og sé ekki betur en að við stefnum á þinghald (Forseti hringir.) sem standi fram í júlímánuð bara vegna þess hversu óhönduglega (Forseti hringir.) er að málatilbúnaði staðið af hálfu stjórnarmeirihlutans. (VigH: … Icesave.)