142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

ummæli í störfum þingsins og framhald sumarþings.

[11:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Heldur þykir mér þunnur þrettándi þessi upphróp hjá stjórnarandstöðunni á þessum fáu dögum sem við komum saman á sumarþingi. Það er sagt að ekkert eigi að gera fyrir heimilin þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar. Hér liggur engu að síður fyrir þingsályktunartillaga frá forsætisráðherra í fjölmörgum liðum þar sem öllum stóru afgangsstærðunum sem núverandi stjórnarandstaða skildi eftir óafgreidd eftir fjögur ár í ríkisstjórn er komið í farveg. Hverju málinu á fætur öðru er komið í traustan farveg en það heitir hjá stjórnarandstæðingum sem boðuðu sátt og gott samstarf á sumarþinginu, og reyndar allt kjörtímabilið, loft og froða. Þannig er það orðað í ræðum í þinginu. Svo er kallað eftir því að fá upplýsingar vegna málefna sem rædd voru opinberlega á blaðamannafundi og gögn send út um. Það hafa allir Íslendingar (Forseti hringir.) jafnan aðgang að þeim upplýsingum.