142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[11:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessar upplýsingar. Það er ágætt að horfið sé frá því að leggja fram tiltekin mál því að það léttir okkur störfin fram undan og gerir að verkum að það verður hægt að ljúka þessu sumarþingi fyrr en ella og taka málin einfaldlega til afgreiðslu á haustþingi.

Það eru ákveðin atriði sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um til viðbótar varðandi þetta frumvarp. Í því er meðal annars ákvæði um að seðlabankastjóri geti ákveðið að fella niður sektir sem lagðar hafa verið á aðila, eða ekki. Ég spyr um ástæður þessa umbúnaðar og hvort hann eigi sér fyrirmyndir í einhverju þar sem embættismenn eins og seðlabankastjóri eða ráðherrar geti ákveðið hvort sektir sem hafa verið lagðar á borgarana séu felldar niður eða ekki. Hvernig stendur þetta gagnvart jafnræðisreglu og öðrum slíkum hlutum? Ég fagna því um leið að hæstv. fjármálaráðherra hefur augun á boltanum og hugar að afnámi hafta eins fljótt og hægt er. Ég fullvissa hann um að við munum efnislega leitast við að eiga góða samvinnu um það mikilvæga verkefni fyrir íslenska þjóðarhagsmuni þvert á landamæri stjórnar og stjórnarandstöðu eins og okkur tókst býsna oft á síðasta kjörtímabili sem betur fer.