142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[11:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að bregðast aðeins við því sem fram kom í fyrra andsvari hv. þingmanns og varðar framlagningu mála af þessum toga. Ég get tekið undir að það skiptir máli að mál komi tímanlega fram en ég tel að allir skilji þær aðstæður sem við búum við í dag. Á stuttu sumarþingi að afstöðnum kosningum vonast ég til að því verði sýndur skilningur að frá meginreglum sem við viljum annars alltaf viðhafa sé vikið í undantekningartilvikum. Ég þakka fyrir að málið skuli hafa komist á dagskrá með afbrigðum.

Varðandi það efnisatriði sem hv. þingmaður spyr um finnst mér verkefni nefndarinnar vera að fara nánar yfir hvernig það stendur gagnvart almennum stjórnsýslureglum. Það er þó alveg skýrt í mínum huga að hér getur aldrei verið um að ræða einhvers konar geðþóttaákvörðun. Þetta yrði að vera ákvörðun sem byggð væri á einhverjum málefnalegum sjónarmiðum og ég hef sjálfur hallast að því að slík sjónarmið ættu sem ítarlegast að vera tiltekin í lögunum sjálfum. Ég beini því til nefndarinnar að kanna hvaða fordæmi eru fyrir því að þessi leið sé farin. Eins og fram kom í máli mínu var frumvarpið unnið í samstarfi ráðuneytis míns og Seðlabankans og er lagt fram með ákvæðinu eins og þar er búið um það.