142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[11:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Út af fyrir sig er ekki miklu að bæta við það sem fram hefur komið í orðaskiptum mínum og ráðherrans fyrr. Það sem skiptir öllu máli fyrir okkur Íslendinga er að Seðlabanki Íslands hafi yfir að ráða öllum þeim tólum og tækjum sem hann þarf til að geta samið við þá aðila sem semja þarf við, einkum erlenda kröfuhafa, og gert þær ráðstafanir að hægt sé að létta af gjaldeyrishöftum í landinu skref fyrir skref svo að það mikilvæga verkefni takist með farsælum hætti. Ef umbúnaður um það er ekki nægilega góður getur sannarlega farið illa og það kostað efnahagsleg áföll sem enginn hér í þinginu, hvar í flokki sem hann stendur, vill sjá. Það er því sameiginlegt skylduverkefni okkar að hlýða vel á það sem bankinn kallar eftir, að hann fái það í sína verkfærakistu í þessum efnum, og reyna að greiða því leið í gegnum þingið.

Um leið er mikilvægt að bankinn hafi þingið að öflugum bakhjarli og að í þingsölum sé breið samstaða um forustu bankans í þessum mikilvægu viðfangsefnum. Í þeim samningum sem fram undan eru er mikilvægt að við komum fram sem ein heild, Íslendingar, og að skýr forusta sé fyrir því að halda á okkar hlut í þessum viðræðum. Það þarf að vera forusta sem nýtur trausts og trúnaðar í hinu alþjóðlega fjármálakerfi því að sannarlega eru mörg óvenjuleg viðfangsefni sem við munum glíma við þar og mikilvægt fyrir okkur að þar fari fyrir aðilar sem njóta trausts og trúnaðar á alþjóðavettvangi og geta vel skýrt málstað okkar þar.

Ég hygg að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafi þegar gert ráðstafanir til að skjóta á aukanefndarfundi til að greiða fyrir því að þetta mál komist til efnislegrar umfjöllunar — núna í hádegishléi — og ekki ætla ég að verða til þess að draga umræðuna þannig á langinn að ekki geti orðið af því. Það er, eins og ég segi, mikilvægt að við sýnum sjónarmiðum hver annars skilning hér í þinginu, alveg sérstaklega þegar að þessum mikilvægu þjóðarhagsmunum kemur, og leggjum okkur fram um það, umfram öll önnur mál, að ná saman yfir raðir stjórnar og stjórnarandstöðu eða flokka almennt þegar kemur að þessum grundvallarhagsmunum okkar til framtíðar. Þó að það sé auðvitað viðleitni sem við sýnum almennt í öllum málum þá er skyldan þeim mun meiri eftir því sem hagsmunirnir eru meiri sem um er að tefla.

Þegar kemur að gjaldeyrishöftum þá er einfaldlega um að ræða samkeppnishæfni Íslands til langrar framtíðar um lífskjör og aðstæður sem við búum komandi kynslóðum, að ná því að brjótast út úr þeim fyrr en síðar, og í þeim samningum sem því þurfa að tengjast eru svo gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir undir að það hefur reynst okkur mikilvægt fram að þessu að standa saman í því. Ég treysti því að við munum bera gæfu til að gera það á þessu kjörtímabili eins og hinu síðasta.