142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[12:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ágætisundirtektir við þau efnisatriði sem frumvarpið hefur að geyma.

Mig langar til að bregðast örstutt við fyrirspurn sem fram kom í framsögunni og lýtur að framhaldi vinnunnar um fjármálastöðugleikaráðið og vegna þeirra nefnda sem hafa verið að störfum. Ég fékk nýlega kynningu á stöðu þess máls og tel að í sjálfu sér sé ekkert því til fyrirstöðu að halda þeirri vinnu áfram. Ég get svo sem lýst því yfir að ég er sammála þörfinni fyrir fjármálastöðugleikaráðið sem þar er komið inn á og geri allt eins ráð fyrir að strax á haustþingi verði komin saman frumvörp sem hægt verður að ræða í þinginu um þessi efni.