142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[12:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held því ekki fram að við séum búin að róa fyrir hverja vík í þessum efnum þó að ýmislegt hafi verið gert. Strax á árinu 2010 og aftur 2011 var breytt ýmsum ákvæðum á fjármálamarkaði til að draga úr áhættu, m.a. í beinu framhaldi af útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þáverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, flutti hér ágætt frumvarp um það. Það var til bóta, ég held að við séum alveg sammála um það, eins og þetta með að það kom í veg fyrir krosslánveitingarnar úr bönkum til eigenda og annað í þeim dúr.

En það þarf meira til, ég er algerlega sammála því, og það hefur verið dregið fram og skilgreint, t.d. að koma í veg fyrir að myndist óvarðar stöður aðila sem skuldsetja sig í erlendri mynt en eru með allar tekjur í innlendri. Auðvitað á að koma í veg fyrir að heimili og sveitarfélög og aðrir slíkir aðilar með allar sínar tekjur í innlendri mynt byggi upp stórkostlega óvarða áhættustöðu með því að skuldsetja sig í erlendu o.s.frv. Þetta hefur allt saman legið fyrir. Sumt af þessu hefur verið framkvæmt en annað ekki.

Reyndar tel ég að ganga þurfi lengra og hef lengi verið þeirrar skoðunar. Það þarf að útrýma tilteknum fjármálategundum fjármálagerninga eða -afurða sem menn hafa innleitt í þetta braskkerfi á síðustu 10–15 árum og grjótharðir kapítalistar hafa sjálfir kallað efnahagsleg gereyðingarvopn. Ég man ekki betur en að það hafi verið Warren Buffet sem beinlínis tók svo til orða að afleiðurnar og vafningarnir væru efnahagsleg gereyðingarvopn, „economic weapons of mass destruction“ ef maður má skjóta enskunni, virðulegi forseti.

Þetta var alveg rétt hjá honum, þessar tegundir af braskgerningum sem menn fundu upp á að kalla fjármálaafurðir, það hljómaði svo vel, eiga auðvitað ekki að líðast. Þetta á ekkert skylt við heilbrigð og eðlileg viðskipti og þessa þarf ekki. Það þurfa ekki að vera þessar tegundir af afurðum í fjármálakerfinu til að þjónusta atvinnulíf og einstaklinga, þær eru óþarfi. Þetta er bara grundvöllur að stöðutöku og braski, þjónar engum eiginlegum (Forseti hringir.) pósitífum tilgangi í viðskiptalegu tilliti.