142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[12:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hárrétt, Seðlabankinn prentar bara peninga og finnur út krónuna. Það vill svo til að allir Íslendingar eiga peninga nema kannski allra yngstu börnin. Sum fá vasapening, þau kaupa sér nammi og nammið hækkar þannig að það hækkar allt, það þurfa allir að borga fyrir þetta, ekki hvað síst lánveitendur sem eru með verðtryggðar eignir. Þær hækka, ekki vegna þess að þær hafi aukist að verðgildi, nei, þær hækka vegna þess að krónan sem er á bak við það rýrnar, þ.e. eignin helst að verðgildi en krónan rýrnar og það sem menn nota til að borga af lánunum sínum og í alla framfærslu, framfærsla heimilanna er verðtryggð, nota bene, það sem er notað til þess eru launin og launin skerðast þegar Seðlabankinn fer í svona æfingar og prentar peninga. Það er rétt, þetta kemur fram sem skattur á alla Íslendinga nema kannski þá alyngstu sem ekki fá vasapening.