142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[12:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum komin töluvert langt frá því frumvarpi sem við ræðum, en ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir ræðuna og seinna andsvar hans. Ég vil segja það að vissulega búa bankar til peninga með lánveitingum, það er þekkt, og til að hindra það hafa menn bindiskyldu og ýmis fleiri tæki sem Seðlabankinn hefur en hefur ekki beitt neitt voðalega sterkt.

Ég hygg að hringferli peninga í hlutafélögum búi ekki síður til peningana og hafi búið til miklu meiri peninga á Íslandi árin fyrir hrun. Þar gátu menn búið til eigið fé í stórum stíl og svo gátu þeir tekið lán út á eigið féð og þannig blés blaðran út. Það eru því ýmsir aðilar sem búa til peninga í þjóðfélaginu, til skaða fyrir alla landsmenn sem eiga krónur nema litlu börnin sem ekki fá vasapening.