142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp og hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Ég held að varla verði fram hjá því litið að geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustan er að mörgu leyti veikur hlekkur í okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi. Það er auðvitað hvað tilfinnanlegast ef ekki er hægt að veita fullnægjandi þjónustu hvað varðar aðstoð við börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra.

Ástandið norðan heiða eða á hinu stóra svæði frá Norðurlandi öllu til Suðurfjarða Austfjarða er hér sérstaklega undir en segja má að þetta eigi auðvitað að hluta til við um ástandið í málaflokknum í heild. Þar af leiðandi er það enn fjær en ella að einhvern lausn sé í því fólgin að vísa íbúum þessa svæðis á þjónustuna annars staðar á landinu því að hún er fulllestuð fyrir og biðlistar og erfiðleikar að sinna henni þar, enda að sjálfsögðu ekki sú lausn sem við kjósum að menn þurfi að sækja stuðning og þjónustu á þessu sviði um langan veg.

Á þessu hefur verið skilningur, að minnsta kosti hvað varðar fjárveitingarhlutann. Þess sást stað í fjárlögum yfirstandandi árs þar sem 20 millj. kr. aukalega voru settar til Sjúkrahússins á Akureyri til að efla starfsemina á þessu sviði. En þetta er að sjálfsögðu ekki bara peningaspursmál, heldur líka spurning um skipulag þjónustunnar og mönnun. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni á þessu sviði eins og víðar að erfiðlega gengur að fá sérfræðinga til starfa, bæði faglega á litið innan einstakra greina og líka landshlutabundið.

Hæstv. ráðherra er hér á heimavelli. Við hljótum að binda vonir við atbeina hans í málinu. Hann á að þekkja vel til og vera í góðum færum til að gera sitt besta til að leysa úr þessu. Við skulum vona að það takist. Alla vega er dapurlegt að horfa upp á þetta ástand verða viðvarandi og er ekki ásættanlegt.