142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið. Á Íslandi er meðalfjöldi geðlækna á 1.000 íbúa 0,22. Á Norðurlöndunum og Bretlandi er hann 0,22, þannig að við erum ekkert verr sett en nágrannar okkar í þeim efnum. Ég held að vandinn kristallist í þeirri stöðu að ef horft er til landfræðilegrar dreifingar eru 43 af 50 geðlæknastöðum á landinu á höfuðborgarsvæðinu. Ef við horfum til barna- og unglingageðlækninga þar sem eru sex og hálft stöðugildi er ekki eftir eitt einasta starf í þeim málaflokki utan höfuðborgarsvæðisins. Það er vandinn. Það skiptir engu máli í þessu efni hversu háa fjárveitingu við erum í raun að ræða.

Það er ekki skortur á fé í þessu máli eins og hv. þm. Kristján Möller gaf til kynna. Brugðist var við þeim athugasemdum sem komu fram við fjárlagagerð fyrir árið 2013 með auknu fé þannig að málið strandar ekki þar. Þingmenn geta ekkert gripið inn í vegna þess að í þessu tilfelli þarf tvo til að semja. Þannig háttar til. Sá eini einstaklingur sem gegndi þessu starfi sagði upp störfum. Það skiptir engu máli hversu mikið þingmenn tala úr ræðustóli, við lemjum ekki fólk til starfa. Við getum hins vegar beitt okkur fyrir lausnum með því að tala við báða málsaðila, hvetja þá til samninga og stuðla að því að samkomulag náist þannig að þessi þjónusta geti gengið óbrjáluð allt frá Hólmavík, austur um og suður um til Hafnar í Hornafirði. Það er verkefni sem heilbrigðiskerfið þarf að vinna úr.

Ég þakka góð orð allra þingmanna sem hér hafa tekið til máls og þakka fyrir þau áheit um stuðning sem hér hafa verið gefin. Verkefnið eins og ég horfi til þess nær til landsins alls með þá þjónustu sem við erum að ræða, ekki einangrað við einn stað á landinu.