142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

fundur í utanríkismálanefnd.

[14:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera verulegar athugasemdir við það að boðað var með litlum fyrirvara til fundar í utanríkismálanefnd núna kl. 2, á sama tíma og þingfundur hófst. Maður á ekki að þurfa að standa frammi fyrir því að þurfa að velja á milli fundar í utanríkismálanefnd, þar sem ég er varamaður, þar sem verið er að ræða þvingunaraðgerðir gagnvart Sýrlandi sem ég hefði gjarnan viljað taka þátt í og hins vegar að sitja þingfund. Þetta er mjög óvenjulegt og á ekki að líðast.

Ég vil líka segja að mér finnst losarabragur vera á þingstörfum á þessu sumarþingi. Dagskrá þingsins kemur seint inn á netið, ég hef til dæmis á þessari stundu ekki hugmynd um hvað verður á dagskrá þingsins á morgun. Verið er að boða nefndarfundi með skömmum fyrirvara, jafnvel á kvöldin, þar sem á að taka út mál og nefndarmönnum gert ókleift að vera á nefndarálitum.

Ég vil brýna forsætisnefnd og stjórn þingsins til dáða í þessum efnum að taka fundahaldið föstum tökum og láta ekki ósiði verða til á upphafsmetrum kjörtímabilsins.