142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

fundur í utanríkismálanefnd.

[14:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson gerir að umtalsefni undir þessum lið er fullkomlega eðlilegt. Ég er í raun alveg rasandi hissa ef þetta er virkilega svona og ég ætla ekki að draga í efa að það sé rétt sem hv. þingmaður upplýsir hér. Það er gersamlega óásættanlegt að þetta sé gert. Þetta er til dæmis ekki í takt við þá nýju tíma sem núverandi forseti Alþingis boðaði í þingsetningarræðu og þess vegna ber að sjálfsögðu að taka þetta fyrir í forsætisnefnd þannig að svona lagað gerist ekki.

Það gengur heldur ekki að mínu mati að nefndafundir séu boðaðir með eins stuttum fyrirvara og nú er verið að gera. Það er eins og allt sé á fleygiferð og allt á mikilli hraðferð, það þurfi að ljúka öllu sem fyrst, en þá verða menn að hafa þetta í heiðri.

Virðulegi forseti. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að viðveru þingmanna er óskað á ýmsum fundum og menn gera sín plön fram í tímann. Þess vegna gengur ekki að gera hlutina á þennan hátt.