142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[14:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú alltaf lúmskt gaman af því þegar við ræðum um sjávarútvegskerfið á Íslandi. Það kerfi er alveg með ólíkindum og menn þurfa ekki annað en að lesa 1. gr. frumvarpsins til að átta sig á því hvað þetta eru orðin mikil ólíkindi.

Reyndar er ég mjög hrifinn af þessu sem stærðfræðingur, þarna er mjög skemmtileg stærðfræðiformúla, meira að segja log10V er notað, en í tillögum meiri hlutans á það að hverfa, svo að ég sakna stærðfræðinnar.

Ég vil spyrja hv. þingmann sem vill halda í gamla kerfið. — Herra forseti. Ég ætlaði að ræða við hv. þingmann í andsvari.

Hv. þingmaður talar um að hún sé hlynnt kvóta Byggðastofnunar sem er í tillögum meiri hlutans. Þá vil ég spyrja hana: Hvernig er stjórn Byggðastofnunar kosin og gæti ég komist þangað inn? Mér telst til að það verði ansi mikil hlunnindi að geta gefið peninga svona.

Síðan vil ég spyrja hana um strandveiðar. Nú vill svo til að strandveiðar eru sóknarmark, ekki aflamark eins og heildarkerfið. Það fer mjög illa saman vegna þess að þeir sem eru á sóknarmarki gætu landað úr aflamarksbátunum í þoku, gætu veitt hratt og vel og hinir selt þeim aflann á miðunum.

Ég vil spyrja hana um strandveiðarnar og sóknarmarkið varðandi öryggi og aðbúnað sjómanna. Nú eru kannski mörg hundruð bátar á sjó í einu. Hvað gerir Landhelgisgæslan ef það brestur á stórviðri og hún þarf kannski að sinna tíu bátum samtímis; einn hér, annar þar? Hvað gerir hún, hverjum sinnir hún fyrst? Er þetta ekki stórhættulegt?