142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[14:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægður með að hv. þingmaður skuli staðfesta grun minn um að Byggðastofnun sé ætlað að eyða og tapa skattfé, en þannig hefur hún unnið. Henni er ætlað að tapa skattfé. Hér koma styrkir til viðbótar þannig að hér er enn frekar verið að láta skattgreiðendur borga tap af rekstri fyrirtækja. Það yrði kannski áhugavert, af því að ég er nú þingmaður Reykjavíkur suður, ef kaupmenn sem margir lenda í vandræðum gætu fengið svipaða styrki þegar þeir eru búnir að reka fyrirtækin sín í þrot.

Varðandi öryggi sjómanna þá hefur óveður ekki brostið á en það hefur gerst á Íslandi og þótt Veðurstofan sé mjög góð og spái yfirleitt rétt hefur það gerst, sérstaklega þegar veðurfar er óstöðugt, að stórviðri brestur á allt í einu þegar enginn á von á því. Það hefur gerst í Íslandssögunni. Þá kemur upp spurningin um að hafa svona litla koppa úti um allan sjó, þeir eru að hámarki 20 tonn í dag. Hér er gert ráð fyrir að þeir fari upp í 30 tonn, það eru reyndar orðin dálítil skip enda mikil stækkun.

Hvað gerist ef aðstoða þarf kannski 20, 30, 40 báta samtímis? Hvernig ætla menn að aðstoða Landhelgisgæsluna og slysavarnafélögin í þeirri siðferðilegu klemmu, hverjum á að hjálpa fyrst?