142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[15:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef tekið þátt í vinnu þess frumvarps til laga sem nú er til umræðu, nefndarálita og breytingartillagna sem hafa komið frá hv. atvinnuveganefnd, og er auðvitað, eins og hér kemur fram, af sama meiði og frumvörp sem við unnum í á síðasta þingi en kláruðum því miður ekki út af ástæðum sem ég ætla ekki að ræða um og lengja með því umræðuna.

Verið er að framlengja mörg ákvæði og setja fram þar sem vitnað er til frumvarpa sem voru hér á síðasta þingi. Aðalatriðið sem ég ætla að gera að umtalsefni er stærðarmörkin. Ég hef hlustað á öll þau rök sem hafa komið í nefndinni og lesið öll þau gögn sem hafa komið með og á móti, og gögn sem hafa komið frá Landssambandi smábátaeigenda, sem hafa varað við þessu vegna þess að þetta geti þýtt meðal annars meiri samþjöppun, þ.e. ef bátarnir stækki geti þeir keypt upp fleiri litla og þannig yrði samþjöppun í greininni. Mér heyrðist það hafa verið líka í ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur áðan.

Ég tel, virðulegi forseti, að ekki sé samhengi þarna á milli. Ég held einfaldlega að það séu aðilar í krókaaflamarkinu með litla báta sem vilja hætta og selja sig út úr greininni. Þá skipti engu máli hvort báturinn er 15 metrar og 20 brúttótonn eða 15 metrar og 30 brúttótonn. Það verður fyrst og fremst hjá þeim sem vill selja sem ákvörðunin verður tekin og svo er einhver sem vill kaupa. Svo getum við aftur haft þær skoðanir á kvótakerfinu hvort það eigi að geta átt sér stað að þeir sem hafa þessar heimildir sem þjóðin á geti selt þær frá sér. Þar hef ég haft ákveðnar skoðanir en ætla heldur ekki að lengja umræðuna með því að fjalla um það en vísa í fyrri umræður og annað slíkt, meðal annars um veiðileyfagjöld.

Ég styð umrædda stærðarbreytingu þó að ég hafi skrifað upp á nefndarálitið með fyrirvara. Það var eingöngu vegna þess að á fundi nefndarinnar í gær gerði ég mér ekki grein fyrir að taka ætti það þar út og hafði ekki lesið nefndarálitið, en í stuttri yfirferð nefndarritara held ég að það hafi komið fram þannig að ég geti alveg stutt þetta.

Þarna er í raun og veru, virðulegi forseti, verið að festa í lög að bátar í krókaaflamarki verði að mestri lengd 15 metrar og að hámarki 30 brúttótonn. Fram kom í nefndinni að þessir bátar geti verið um 4,60, hámark 4,70, á breidd til að vera innan þessara marka. Það tel ég og hef fengið upplýsingar frá sjómönnum sem róa á svona bátum að sé betra en eins og var í frumvarpinu þar sem talað var um hámarksbreidd 4,10. Ég held einfaldlega að þeir bátar hefðu verið of mjóir, það hefði komið niður á sjóhæfni og síðast en ekki síst niður á vinnuaðstöðu sjómanna. Ég held að töluvert sé í að sækja að fá meiri breidd, ég tala nú ekki um þar sem um línubáta er að ræða, og að þá skapist það sem menn hafa talað um pláss til að koma með blóðgunarkar sem er ákaflega mikilvægt hvað varðar meðhöndlun fisks og eykur gæðin.

Einnig hafa komið fram sem gagnrýnisraddir, og á þær hef ég hlustað mjög, að með þessum breytingum sé verið að stíga það skref að það næsta hjá þeim aðilum sem eru með skip af þessari stærð og eru í krókaaflamarkinu verði að banka á dyr stjórnvalda og biðja um að fá að færa sig upp í stóra kerfið og þeir hætti þá að vera krókaaflamarksbátar og veiða á krók og geti þá farið á net eða eitthvað annað og búið kannski til meiri söluverðmæti. Þess vegna fagna ég þessu mjög og það kemur inn eftir ábendingum frá mér í nefndinni og spurningum til forustumanna Landssambands smábátaeigenda, sem tóku mjög undir það sjónarmið að til bóta væri að festa það hér inn. Þess vegna er það í nefndarálitinu og ég minni á að álit nefndarinnar er um leið lögskýringargagn. Það segir þá líka um vilja þeirra sem skrifa upp á nefndarálitið, fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, minn sem fulltrúa Samfylkingar — ég held að fleiri hafi ekki skrifað upp á það frá öðrum flokkum — að þar kemur fram skýr viljayfirlýsing.

Á bls. 3 í nefndarálitinu undir kaflanum Niðurstaða, stendur, með leyfi forseta:

„Tekið skal þó fram að tillögur meiri hlutans stefna ekki að því að gera handhöfum krókaaflamarks fært að færa sig yfir í aflamarkshluta fiskveiðistjórnarkerfisins heldur grundvallast þær á sjónarmiðum um öryggi sjómanna og gæði sjávarafla.“

Það er mjög mikilvægt að hnykkja á þessu í nefndarálitinu og það komi fram, vegna þess að með því erum við í raun og veru að koma til móts við það sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndi áðan, að við erum að standa vörð um krókaaflamarkskerfið. Við ætlum að hafa þessi tvö kerfi þó svo að sjálfsögðu löggjafinn sé ekki að skipta sér af því hverjar stærðir skipa í krókaaflamarkskerfi eigi að vera, alveg eins og við skiptum okkur ekki af stærðum skipa í aflahlutdeildarkerfinu. Það er þróun sem hefur átt sér stað við smíði þessara báta, sem ég held að séu flestir ef ekki allir smíðaðir á Íslandi, af okkur sem þróum þá báta. Við þekkjum þá og okkur finnst stórkostlegt hvað hefur átt sér stað.

Ég hef talað um, virðulegi forseti, að þeir stærri bátar geti keypt upp þá minni, ég er búinn að svara því, ég held að það hafi ekki áhrif þarna. Með því að vera á nefndarálitinu kemur fram það sjónarmið mitt er lýtur að öryggi sjómanna og gæðum sjávarafla, það er veigamikið atriði, og síðast en ekki síst til að koma í veg fyrir að menn séu með þær aðferðir sem þeir hafa notað hingað til með alls konar kössum, svölum, síðustokkum og fleiru sem reiknuðust ekki inn í mælingu þeirra samkvæmt verklagsreglum Siglingastofnunar.

Hér er komið til móts við það og það er vel, held ég. Sjóhæfni bætist þá líka. Fram hefur komið að þeir bátar sæki lengra út á miðin, meðal annars til að forðast ýsu sem ekki er allt of mikið af núna. Bátarnir fara töluvert langt frá landi og við sem fylgjumst með fiskveiðum sjáum að þeir bátar og sjómenn koma að landi vestur á fjörðum með 20–25 tonn.

Með því að taka út þá reglu sem kennd var við Evrópusambandið, þ.e. þá reiknireglu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal saknaði líka út frá stærðfræðiformúlum um dýptina, þ.e. 1,85, kom fram — ég hygg að það hafi ráðið úrslitum hjá nefndarmönnum að fara aftur í þá reglu — að menn eru þá ekki að lækka dekkhæðina vegna einhverra annarra atriða sem verið er að gera í hönnun og smíði skipsins.

Þetta eru veigamestu atriðin, virðulegi forseti, í afstöðu minni til málsins, ég hafði þá skoðun líka á síðasta þingi og það kom fram við 1. umr. málsins. Þá lýsti ég því að eftir að það mál var tekið úr nefnd kom ósk í nefndinni, eftir að ég var kominn þar aftur til starfa og tekinn við stjórn nefndarinnar, og það var rætt á einum fundi nefndarinnar þar sem sjö nefndarmenn af níu voru mættir þar sem allir voru sammála um að fara í þessa breytingu á stærðarmörkunum, þó svo að ég vilji hafa einn fyrirvara á. Það var um hvort brúttótonnin yrðu 20, 25 eða 30. Ég man það hreinlega ekki hvað við vorum komin langt í því en ég man vel að við yrðum að hafa brúttótonn, hnýta þau aftan við þannig að ekki verði smíðað skip, eins og menn sögðu, sem væri þá kannski bara 15 sinnum 15, sem yrði nú ekki mjög rennilegt og fallegt skip en svona aðeins ýkt.

Ég held, virðulegi forseti, að þetta mundi alveg nægja mér til að setja fram sem rökstuðning í þessu máli. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að mikil þróun hefur átt sér stað í byggingu og smíði þessara báta og það er sjálfsagt að leyfa því að þróast áfram og koma þess vegna til móts við þetta. Þar með er komið til móts við þær æfingar sem menn hafa haft, eins og ég nefndi áðan, með ýmiss konar aðferðir til að breyta þessu. Við vitum það að verið er að byggja báta í dag sem þá þetta tekur út og kemur til móts við þessi atriði.

Um önnur atriði vil ég ekki fjölyrða en er auðvitað sammála því sem hér kemur fram, sem er þó ekkert sérstaklega vel orðað, Byggðastofnunarbyggðakvóta, sem er hugsað til Byggðastofnunar til að koma til móts við fámenn byggðarlög sem eru á varnarsvæðum sem hafa átt við mikinn vanda að etja um langt árabil og nægir þar að nefna Raufarhöfn. Ég hef lengi haft þá skoðun líka að til eigi að vera frátekinn kvóti sem hægt er að veita til þessara minnstu byggðarlaga sem hafa lent í vandræðum og kvóti hefur verið seldur frá eins og Raufarhöfn. En þá þurfi sá kvóti að vera þannig að honum sé úthlutað lengur en til eins árs í senn. Hann gæti þurft að vera alveg fimm ára kvóti þess vegna, þannig að fiskverkendur og aðrir geti unnið út frá því að þetta sé ekki bara til eins árs og enginn viti hvað gerist 1. september þar á eftir.

Sömuleiðis um eignarhald á fiskiskipum á strandveiðum, eins og kemur fram í 2. gr. þar sem fjallað er um það. Ég vona að það sem þarna er sett inn dugi til þess að uppfylla það sem ég held að allir vilji ná fram. Strandveiðarnar voru aldrei hugsaðar sem fjöldi báta í einu hlutafélagi eða eitthvað svoleiðis eða ein kennitala með marga báta, heldur var þetta hugsað í raun og veru fyrir eigandann. Ég vona, virðulegi forseti, að áður en forseti lýðveldisins skrifar undir þetta frumvarp og gerir það að lögum verði menn ekki búnir að finna leið fram hjá því sem við höfum ekki séð fyrir hér og nú.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég láta duga um nefndarálitið og þær breytingartillögur sem hér eru. Eins og ég sagði stend ég að nefndarálitinu með fyrirvara, ég hef útskýrt hvers vegna hann er. Að öðru leyti lýsi ég því yfir að ég mun styðja þá breytingartillögu sem hér kom fram og þær aðrar greinar sem hér eru settar inn, eins og með Byggðastofnunarbyggðakvóta.