142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[15:12]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í tengslum við þessa umræðu langar mig að minna á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðir og bæi landsins og þátt greinarinnar í fjárfestingu og uppbyggingu í þeim samfélögum.

Hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa ítrekað farið mikinn um meinta ætlan hæstv. ríkisstjórnar um að færa útgerðinni tíu milljarða á silfurfati og að hún ætli ekkert að gera fyrir heimilin. Ég vil því segja þetta: Fjölmörg heimili hringinn í kringum landið byggja afkomu sína á sjávarútvegi og tengdum greinum. Sterk staða sjávarútvegs er mikilvæg fyrir þau heimili, sveitarfélögin og ríkissjóð.

Hv. stjórnarandstöðuþingmenn gera ekki greinarmun á stórum, meðalstórum og litlum útgerðarfyrirtækjum en tala einungis um útgerðarfyrirtæki landsins sem eina heild og mikinn gróða útgerðarinnar í eintölu. Afkoma lítilla og meðalstórra útgerðarfyrirtækja um land allt á undir högg að sækja og ljóst að þeim fer fækkandi af fjárhagslegum ástæðum sem þýðir að grafið er undan heimilum þeim tengdum.

Atvinnutæki í sjávarútvegi eru gríðarlega mikil fjárfesting og dýr. Kringum hverja útgerð eru mörg störf og margfeldisáhrif ná út í öll þau samfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Ég er alin upp í fjölskyldu sem byggði afkomu sína á sjávarútvegi, þekki þær fórnir, strit og erfiði sem oft og tíðum fylgja þessari atvinnugrein og ég ber mikla virðingu fyrir því fólki sem við hana starfar. Mér finnst að við ættum að gæta orða okkar þegar við tölum um þetta fólk sem skilar fullkomlega sínu til samfélagsins.