142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

breyting á stjórnarskrá og þjóðaratkvæðagreiðslur.

[11:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að bjóða hæstv. forsætisráðherra velkominn heim og vona að honum hafi ekki orðið meint af veru sinni í útlöndum.

Til umfjöllunar hjá okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er frumvarp sem samþykkt var á síðasta þingi um breytingu á stjórnarskrá sem kom í framhaldi af þeim góðu tillögum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var með í stjórnarskrármálunum og átti að vera leið til þess að halda því máli áfram. Nokkur umræða hefur skapast um það að mögulega mætti ná sátt um a.m.k. einstaka þætti úr þeim tillögum.

Mér leikur forvitni á að heyra afstöðu forsætisráðherra til þess og þá kannski sérstaklega þess atriðis sem nefnt hefur verið og varðar þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að hæstv. forsætisráðherra er sem kunnugt er áhugamaður um beint lýðræði.

Tillaga stjórnlagaráðsins var um það að 10% kjósenda gætu krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilsverð mál og það var jafnframt tillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég vildi spyrja forsætisráðherra hvort það sé forgangsmál í hans huga að Alþingi lögfesti, hvort sem er með breytingum á stjórnarskrá eða með almennum lögum, rétt kjósenda til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilsverð mál og hvort þetta viðmið, 10%, sé eitthvað sem hann telji vera rétt og eðlilegt viðmið. Nú kunna að liggja fyrir yfirlýsingar af hálfu hæstv. forsætisráðherra um þetta efni en hann verður þá að afsaka ókunnugleika minn í því.

Sömuleiðis vil ég spyrja hvort hæstv. forsætisráðherra telji að einhver málefni henti ekki vel til þjóðaratkvæðagreiðslu, en menn þekkja jú umræðu um það. Þá spyr ég kannski sérstaklega um þjóðréttarsamninga eða skattamál. Telur hann að annaðhvort þjóðréttarsamningar eða skattamál henti illa í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Telur hann það forgangsmál að fólki fái þann rétt að kalla mál til atkvæðagreiðslu og eru þá 10% kjósenda hæfilegt viðmið eða vildi hann sjá það 15% eða 5%?