142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

friðlýsing Þjórsárvera.

[11:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það tekur tíma að undirbúa friðlýsingu. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum þar sem Hofsjökull allur verður hluti friðlandsins hefur verið í undirbúningi um árabil. Vinnan hefur verið á grundvelli náttúruverndaráætlunar sem samþykkt var árið 2009 og svo verndarflokks rammaáætlunar síðan í vetur sem leið þar sem Norðlingaalda fór í verndarflokk.

Í aðdraganda sem þessum þarf Umhverfisstofnun að eiga samskipti og fundi við gríðarlega marga, sveitarfélög og hagsmunaaðila, og opna fyrir umsagnir og athugasemdir, allt samkvæmt lögum í íslensku lögbókinni.

Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum á sér langa sögu. Í raun má segja að baráttan hafi staðið í ríflega 40 ár og hægt og bítandi hafi þeim skilningi vaxið ásmegin að verin beri að vernda enn frekar og tryggja stöðu náttúrunnar þar fyrir komandi kynslóðir. Eftir ferilinn langa er boðað til hátíðar á lengsta degi ársins, bjartur dagur, boðið til undirritunar og til veislu. Sveitarstjórnarmenn og heimamenn undirbúa og prúðbúast. Starfsfólk Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, allir þingmenn o.fl. fengu boðskort sem er prýtt glæsilegri yfirlitsmynd af þessu einstaka svæði. Það verður enginn samur eftir að upplifa Þjórsárver, árnar, gróðurinn og fjöllin og Arnarfell hið mikla og blómabreiðuna. En kvöldið fyrir athöfnina birtist viðtal við ráðherra, ekki umhverfis- og auðlindaráðherrann sem fer með málefni náttúruverndar, nei, það birtist viðtal við iðnaðar- og viðskiptaráðherra Sjálfstæðisflokksins um það að hún sé margbúin að biðja umhverfisráðherrann að endurskoða áform sín. Hvað gerist í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar? Iðnaðarráðherrann ræður dagskrá umhverfisráðherrans og friðlýsingunni er frestað. Veitingar settar í frysti og sparifötin inn í skáp. Hér er enn eitt dæmi um það hversu undarlega umhverfismálum er skipað í nýrri ríkisstjórn. Náttúruverndarmál mæta afgangi.

Ég spyr því: Hver er afstaða forsætisráðherrans varðandi friðlýsingu Þjórsárvera og hversu langan frest telur hann eðlilegt að taka áður en friðlýsingin verður staðfest?