142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

málefni ferðaþjónustu.

[11:16]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn um þetta mikilvæga mál. Það er ekki alveg rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að þetta sé eitthvað sem umræða er að hefjast um núna, þvert á móti hefur umræða um þetta verið í gangi í um það bil 50 ár eftir því sem mér skilst af viðbrögðum sem ég hef fengið frá því að ég tók við embætti, en það hefur ekki komist nein niðurstaða í þetta mál.

Umræðan snýst um þetta og núna er þetta orðið mjög brýnt og aðkallandi vegna þess að fjölgun ferðamanna síðastliðin ár hefur verið gríðarleg. Við erum að fara úr 300 þús. ferðamönnum árið 2003 í það sem spáð er núna, 800 þús. ferðamenn tíu árum síðar. Við hverju þarf að bregðast? Það þarf að bregðast við því að við viljum vernda náttúruna okkar, sem er söluvaran, við viljum tryggja öryggi ferðamannanna sem hingað koma — við höfum séð allt of mörg dæmi þess að ferðamenn hætta lífi sínu og limum til þess að ná flottri mynd sem næst fossinum eða næst einhverju sem er sérstakt í náttúru okkar — og í þriðja lagi þarf að tryggja uppbyggingu á ferðamannastöðum.

Það sem hv. þingmaður spyr um er: Hversu mikið á að innheimta? Hversu mikið á að koma í kassann? Þetta eru spurningar sem ég get ekki svarað svo að ég sé algjörlega heiðarleg með það. Það sem verið er að fara af stað með núna í ráðuneytinu er að skoða þær mismunandi leiðir sem til eru, allt frá því að vera hugmyndir um einhvers konar náttúrupassa sem væri þá hóflegt gjald á alla sem koma, hvort það ætti að vera á Íslendinga líka eða bara útlendinga er enn í formi spurningar og hefur ekki verið svarað.

Síðan er spurningin: Dugar það til? Er það lausnin eða þurfum við að setja upp einhvers konar gjaldtöku á fjölsóttustu ferðamannastöðunum sem verða fyrir mesta áganginum? Það er þá önnur spurning sem ég viðurkenni fúslega að ég er ekki með svörin við en fer inn í þessa vinnu. (Forseti hringir.) Punkturinn er þessi: Nú er kominn ákveðinn vilji, (Forseti hringir.) m.a. innan greinarinnar sjálfrar, til að skoða þetta heildstætt (Forseti hringir.) og þar erum við stödd núna.