142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

aukið fjármagn í skatteftirlit.

[11:30]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Í gær fór fram í þingsalnum áhugaverð umræða, sem nokkrir hv. þingmenn tóku þátt í, um svarta atvinnustarfsemi og þar með undanskot frá skatti. Umræðan tengist óhjákvæmilega ferðaþjónustunni sem komið var inn á í gær og þar með fyrirhugaðri lækkun á virðisaukaskattsprósentunni.

Fyrir liggur að á síðasta ári leiddi hert eftirlit skattstjóra til þess að um 7,5 milljarðar skiluðu sér í ríkiskassann. Á síðustu fjórum árum er þessi upphæð á þriðja tug milljarða. Flestir eru sammála um að peningum sem varið er í skatteftirlit sé vel varið, þetta eru peningar sem skila sér fljótt og vel til baka og margfalt.

Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er ekki mikið fjallað um þessi mál. Farið er mjög almennum orðum um hvort taka eigi á þeim málum. Skattstjóri biður sjálfur um meira fjármagn til eftirlitsstarfa. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Er von á auknum fjárveitingum í skatteftirlit?