142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

aukið fjármagn í skatteftirlit.

[11:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þegar ný ríkisstjórn stillir fram meginlínunum fyrir gerð fjárlaga fyrir næsta ár er gerð almenn hagræðingarkrafa á stjórnsýsluna en þeim stofnunum sem sinna þessu hlutverki verður þó hlíft í því samhengi. Það verður til dæmis ekki gerð sama hagræðingarkrafa til skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, tollstjórans og annarra þeirra sem annast um innheimtu opinberra gjalda.

Í tengslum við umræðuna um aukið skatteftirlit og hugsanlegan ávinning af því get ég tekið undir með hv. þingmanni. Það má segja að þeim fjármunum hafi verið vel varið þar sem það hefur skilað auknum tekjum. Það ber þó að gæta sín á því að setja samasemmerki á milli álagningar skatta og raunverulegra skatttekna sem skila sér þegar upp er staðið. Í sumum tilvikum enda mál með þeim hætti að lagður er skattur á fyrirtæki sem ekki geta staðið undir því eða eru á leiðinni í þrot eða einstaklinga sem geta ekki heldur staðið undir viðkomandi skattgreiðslum. Það breytir þó ekki hinu að það skiptir máli að fá rétta niðurstöðu varðandi það með hvaða hætti skattinn átti að leggja á frá upphafi og það má ekki gera lítið úr þeim tilgangi í sjálfu sér. Síðan verður það á endanum alltaf mjög vandratað einstigi hversu langt eigi ganga í því að leyfa ríkinu eða eftir atvikum skattgreiðendum að njóta vafans þegar vafatilvik koma upp og hversu langt eigi að ganga í því að halda málum opnum, í hversu mörg ár, og hversu mörg dómsmál eigi að höfða til að fá botn í öll möguleg ágreiningsefni í þessu sambandi.

En til að svara spurningunni aftur þá er sem sagt lagt upp með það að halda áfram þeirri vinni sem hefur verið undanfarin ár við að efla skatteftirlitið og ekki verður gerð sama hagræðingarkrafa á viðkomandi stofnanir og annars staðar í stjórnsýslunni.