142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[11:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér kemur til atkvæða 4. mál á þskj. 4 sem er um nokkrar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Veigamesta breytingin sem felst í 1. gr. er gamall kunningi sem oft hefur verið ræddur á Alþingi, þ.e. um stærðarmörk krókaaflamarksbáta. Hér er það fest inn til að setja það í raun og veru í lög til að menn þurfi ekki að vera með alls konar æfingar, ef svo má kalla, við smíði þessara skipa svo sem hafa á þeim svalir, kassa, síðustokka o.s.frv., eins og gert hefur verið, sem ekki koma til mælinga.

Það sem ég vil vekja sérstaklega athygli á í nefndarálitinu sem allir skrifa undir nema einn er, með leyfi forseta:

„Tekið skal þó fram að tillögur meiri hlutans stefna ekki að því að gera handhöfum krókaaflamarks fært að færa sig yfir í aflamarkshluta fiskveiðistjórnarkerfisins heldur grundvallast þær á sjónarmiðum um öryggi sjómanna og gæði sjávarafla.“

Mikilvægasta ástæðan fyrir því að setja þetta hér inn og breyta þessu er atriðið sem ég las upp. Ég er ákaflega ánægður með að svo margir fulltrúar skrifa upp á þetta atriði.