142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[11:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessari breytingartillögu og því að þessu skuli bætt inn í frumvarpið ef Alþingi fellst á það. Það er á grundvelli þeirrar aðferðafræði sem Byggðastofnun hefur verið að móta, að taka sérstaklega á vandamálum allra lakast settu byggðanna, brothættra byggða. Erindi þar um barst stjórnvöldum í vetur frá Byggðastofnun að hún hefði einhver úrræði af þessu tagi gagnvart þeim byggðum þar sem mikill samdráttur er í aflaheimildum og aðrir erfiðleikar í byggðamálum hafa gert stöðuna mjög brothætta. Ég tel það því fagnaðarefni að Byggðastofnun fái þá úr þessu að moða þótt ekki verði fyrr en á næsta fiskveiðiári og eru tilteknir staðir auðvitað hafðir í huga í þeim efnum eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmönnum sé kunnugt um. Það er í samræmi við nýja aðferðafræði Byggðastofnunar að vinna þessi mál með íbúum viðkomandi staða með íbúafundum og slíkum aðferðum. Ég er sannfærður um að það er vel réttlætanlegt að taka frá veiðiheimildir sem þessu nemur til þess að Byggðastofnun hafi úrræði af þessu tagi þar sem á þarf að halda.