142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé rétt að margir dómar varðandi þessi mál séu gengnir og að þeim fyrirtækjum sem eru með slík lán og buðu upp á slík lán sé ekkert að vanbúnaði að endurútreikna fyrir viðskiptavini sína. Hins vegar er það svo að hvorki ég né nokkur annar hér inni getur séð fyrir öll þau ágreiningsefni sem upp kunna að koma. Auðvitað getur verið að menn eigi enn eftir að höfða mál og stefna inn kröfum er varða gengislánadóma. Það get ég ekki séð fyrir og löggjafinn getur ekki séð fyrir öll hugsanleg tilvik.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður fjallaði um varðandi flýtimeðferðina, mál sem lagt var fram hér á síðasta kjörtímabili, þá erum við auðvitað á öðrum stað í dag. Það hafa liðið fjögur ár. Allmörg mál hafa nú þegar farið í gegnum dómstólana. Eins og ég sagði í ræðu minni og kom fram í þeim gögnum sem við fengum í nefndina þá eru um 60 mál enn í dómskerfinu sem bíða úrlausnar er varða mál sem tengjast skuldum heimilanna. Við vitum auðvitað ekki og getum ekki fullyrt það hér hversu mörg önnur mál eru á leiðinni og það getur ekki nokkur maður gert. Ég tel að þetta frumvarp sé til bóta. Ég held að það veiti sterkan lagagrunn fyrir dómarana til þess að taka ákvarðanir. Margir hverjir hafa reynt að flýta málsmeðferð eins og kostur er, hugsanlega ekki allir, og hér kemur grunnur undir slíka ákvarðanatöku.