142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[12:00]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um flýtimeðferð þó að það sé kannski ekki alveg rétta heitið; um það hvernig hraða megi málum í gegnum dómstóla, ýmsum álitamálum sem varða skuldamálin. Tíu atriði voru lögð fram í þingsályktunartillögu til lausnar á skuldavanda heimilanna og er þetta eitt af þeim þremur málum sem eru tilbúin sem þingmál og ber að fagna því; sem sagt breyting á lögum til að hraða málum til að fá skýrari mynd af því hvernig vinna eigi úr skuldavandanum.

Fram hefur komið að Samfylkingin styður allar tilraunir til að reyna að vinna úr þessum skuldavanda og mun styðja ríkisstjórnina í því að hraða málum eins og hægt er og reyna að fá sem fyrst skýr svör þannig að ríkisstjórninni verði fært að standa við þau loforð og fyrirheit sem gefin voru.

Þess ber þó að gæta að í umfjöllun um þessi mál kemur mjög skýrt fram að engin ástæða er til að hafa sérstakar væntingar um að þetta eitt og sér leysi mörg mál, einfaldlega vegna þess að þessi mál hafa almennt fengið hraða meðferð í kerfinu. Það hefur þá ráðist af málsaðilum en ekki af forminu eða dómstólunum ef mál hafa tafist. Það kom líka ágætlega fram í nefndinni að það skiptir mjög miklu að gæta þess að hraðinn verði ekki þannig að þeir sem sækja mál, sækja sín réttindi, fái ekki tíma til að vinna sín mál þannig að úrlausn á oft flóknum málum fáist sem best.

Það hefur vakið athygli í sambandi við þessi mál, alveg frá því að þau komu fyrst inn í þingið, og í öllum tilraunum sem gerðar hafa verið til að koma málum hraðar fram, hversu mikill ágreiningur er um lausn þeirra og hve lagatúlkunin hefur verið ólík. Ég held að það sé nánast regla fremur en undantekning að héraðsdómur og Hæstiréttur hafi komist að mismunandi niðurstöðu. Menn hafa verið að reyna að vinna í þessu lagaumhverfi og reyna að sjá fyrir hvaða afleiðingar hitt og þetta hefur fyrir heimilin, túlka samninga varðandi gengistryggðu lánin, í allri þeirri vinnu sem hefur fylgt í framhaldi af því að þau voru dæmd ólögleg. Niðurstöðurnar hafa verið mjög mismunandi hjá mismunandi dómum og mál jafnvel verið afgreidd úr Hæstarétti í ágreiningi. Ég held því að menn verði að passa sig og því miður er ekki ástæða til að vera með miklar væntingar í sambandi við framhaldið.

Flest málin sem hafa farið inn hafa varðað gengistryggð lán og auðvitað höfum við fyrst og fremst horft á gengistryggð neytendalán og þá húsnæðislánin þar undir. Tvö mál sem mjög mikilvægt er að fá skorið úr eru hjá dómstólum og varða lögmæti verðtryggingarinnar. Eru miklar væntingar hjá ákveðnum hópum um að þar geti dómsniðurstaða orðið með svipuðum hætti og varðandi gengistryggðu lánin og þar með komið til víðtækra leiðréttinga. Fyrsta málinu sem þar kom inn var að vísu vísað frá í fyrstu lotu en væntanlega verður það tekið fyrir í annað skipti.

Það hefur líka komið fram að þær tilraunir sem hafa verið gerðar áður — þetta mál hefur verið mikið rætt og fyrrverandi ríkisstjórn leitaði eftir því hvort ekki væri ástæða til að samþykkja flýtimeðferð — þá voru menn að tala um það form sem er í XIX. kafla laganna og var mál sem þáverandi þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson flutti. Málshefjandi hér og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, gerði ágætlega grein fyrir því. Á þeim tíma var það mat manna, og sérstaklega dómstólaráðs, að sú leið væri ekki skynsamleg vegna þess að þar væru þvingaðir frestir settir í svo stuttan tíma að það gæti bitnað á málinu sem slíku.

Það kom aftur fram í umfjölluninni um þetta mál að skynsamlegt væri að gefa næga fresti í sumum tilfellum þó að einnig væri ástæða til að hraða málum eins og unnt væri. Það má kannski segja að meginniðurstaða þeirra sem komu að þessu máli, og ástæðan fyrir því að ég styð það og geri ekki neinn sérstakan fyrirvara, sé sú að málið væri til bóta, að það skapaði skýrari heimild fyrir dómara til að setja þessi mál í forgang en þó ekki í eins þvingaða meðferð og XIX. kaflinn kveður á um.

Nú er þetta ekki sérfræðigrein mín og margir hér í salnum sem kunna þetta miklu betur en ég. Eftir að hafa tekið þátt í að finna lausnir, eftir að hafa tekið þátt í því að reyna að segja fyrir um hvernig túlka eigi ákveðna hluti, vil ég segja að það hefur reynst þrautin þyngri, einfaldlega vegna þess að dómstólar hafa síðan talað með öðrum hætti en stjórnvöld og að sjálfsögðu verður að hlíta þeim dómum og það hefur svo haft áhrif á meðferð mála.

Talað er um að nú séu 60 mál hjá dómstólunum sem að mestu leyti varða gengistryggð lán og fram hefur komið að ekki hefur verið unnin greining á þeim málum. Það kann að vera að mörg þeirra séu sama eðlis og þar af leiðandi fáist svör jafnóðum og málin komast í gegn. Segja má að svipað hafi átt sér stað — þar fengum við í sjálfu sér ekki endanlega niðurstöðu, og getur nefndin vonandi fjallað betur um það milli 2. og 3. umr. — þ.e. að myndaður var sérstakur hópur aðila og fengin heimild frá samkeppnisyfirvöldum til að vinna greiningu á hvaða mál þyrftu að koma fyrir dómstóla til að úrskurða um lögmæti og ólögmæti einstakra gengistryggðra lána. Þar komu að fulltrúar fjármálafyrirtækjanna, umboðsmaður skuldara, Neytendastofa, umboðsmaður neytenda og fleiri aðilar sem reyndu að kortleggja skipulega hvaða mál þyrftu að fara fyrir dóm. Niðurstaðan var að það væru ellefu mál sem þar þyrftu að fara í gegn. Af þeim er búið að ljúka, að því er okkur er sagt, átta, þrjú þeirra eru ókláruð. En af þessum átta fóru ekki öll fyrir dóm heldur hafði samkomulag náðst áður og það var ekki nógu skýrt hjá umboðsmanni skuldara hvað það þýddi, þ.e. hvort þau hafi þá verið fordæmisgefandi eftir sem áður vegna þess að niðurstaðan hefði verið túlkuð með ákveðnum hætti.

Umsagnirnar um þessi mál eru flestar jákvæðar. Tveir aðilar gerðu enga athugasemd, Alþýðusamband Íslands og Viðskiptaráð. Dómstólaráð skrifaði umsögn þar sem mælt er með frumvarpinu og hafði það að einhverju leyti komið að umfjöllun um það. Það vekur þó athygli á því, sem fram kemur í fyrirvara hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, að fái þessi 60 mál framgang umfram önnur mál gæti það bitnað á öðrum málum. Við verðum að treysta því að því verði mætt af stjórnvöldum með viðbótarmannafla til að hægt sé að hraða þessum málum án þess að það skaði önnur mál sem eru í kerfinu.

Fjármálaeftirlitið styður framgang þessa frumvarps og hefur fjallað um það og segir í sínum texta, með leyfi forseta:

„Afar mikilvægt er fyrir neytendur, fjármálafyrirtæki og hagkerfið í heild að leyst verði sem fyrst úr þeirri óvissu sem enn er ríkjandi vegna framangreindra mála.“ — Var þá verið að vitna til þess sem frumvarpið fjallar um.

Athyglisvert er að lesa umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna. Þar koma fram ágætisábendingar um að jafnvel þurfi að horfa til annarra hluta, sem undirstrikar ágætlega þá erfiðleika sem stjórnvöld á hverjum tíma munu standa frammi fyrir með þessar leiðréttingar — menn gætu hafa þurft að sæta afarkjörum í gegnum yfirdráttarlán og annað slíkt í tengslum við vandann sem skapast hefur við stökkbreytingu lána. Hvergi í þeim tíu tillögum sem fram hafa komið hefur það verið nefnt, eða hverjar afleiðingar af þessu hruni og forsendubrestinum, verðtryggingunni og hækkunum á höfuðstól hafa verið, hvernig það hefur bitnað á einstökum aðilum og hvernig afleiðingar hrunsins verða gerðar upp þegar leiðréttingin á sér stað. Þetta eru stórar spurningar og erfiðar og engin einhlít svör til við þeim. Það skiptir samt máli að þetta sé rætt og við verðum að treysta á að þeir hópar sem fara í gang í framhaldi af þingsályktunartillögunni taki á þessum málum.

Hagsmunasamtökin vara við því að gildistíminn sé afmarkaður — þetta frumvarp er til ákveðins tíma — og benda á að kannski væri rétt að hafa það án þess að tilgreina lok á þessu tímabili, bara til að tryggja að þessi hröðun mála virki til lengri tíma. Samtökin sjá það einfaldlega fyrir sér að það muni taka tíma að gera þessi mál upp.

Ég ætla ekki að fara yfir allar umsagnirnar en það er líka forvitnilegt að lesa umsögn Lögmannafélags Íslands. Þeir mæla eindregið með því að nota XIX. kaflann og fara í formlega flýtimeðferð samkvæmt lögunum og telja að frumvarpið gangi of skammt hvað þetta varðar. Ég ætla svo sem ekkert að rekja sjónarmið þeirra mikið frekar en forvitnilegt er að lesa fyrirsagnir þeirra sem segja kannski svolítið um það sem þeir vekja athygli á. Þeir benda meðal annars á að frumvarpið sé ekki líklegt til að ná markmiði sínu og að frumvarpið taki ekki til vilja málsaðila. Þeir telja að flýtimeðferðinni eigi að beita samkvæmt XIX. kafla og þá sérstaklega á þau mál sem eru sérvalin og eru fordæmisgefandi, sem er sambærilegt við þau ellefu mál sem ég var að ræða áður, sem voru tilraunir til að skilgreina nákvæmlega úr hverju þyrfti að fá skorið. Það er einnig ítrekað af Lögmannafélaginu að flýtimeðferð dómsmála ein og sér eyðir ekki allri óvissu.

Ég tek undir þessar athugasemdir. Ég held að menn verði að passa sig á því, eins og ég sagði í upphafi, að þó að þarna sé að fara í gegnum þingið fyrsta málið af þessum tíu, að ekki verði bundnar of miklar væntingar við að þetta leysi einhver stór atriði. Engu að síður ber að fagna því að þetta er eitt skref og klár viljayfirlýsing til að reyna að þoka málum áfram og reyna að fá svör við því sem þarf að fá svör við.

Samtök fjármálafyrirtækja ítreka líka í umsögn sinni mikilvægi þess að flýta úrlausn álitamála í dómskerfinu sem risið hafa í kjölfar dóma og hafa tekið þátt í þeirri vinnu á undanförnum árum. Sama gerir Seðlabanki Íslands og Samtök iðnaðarins þó að menn komi svo með ábendingar og tillögur sem fjallað hefur verið um í nefndinni án þess að ástæða hafi verið talin til að breyta frumvarpinu í samræmi við það sérstaklega þó að ástæða sé til að lesa þær athugasemdir.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í álit Seðlabanka Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Umrætt frumvarp virðist vera einfaldara í framkvæmd en þau frumvörp sem flutt hafa verið á fyrri þingum um sama efni og ekki náð fram að ganga.“

Þar er verið að vitna í frumvarp Sigurðar Kára Kristjánssonar sem komst ekki í gegnum þingið á sínum tíma.

Auk þess segir Seðlabankinn, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að töluverður fjöldi dóma hafi gengið hingað til um ólögmæt gengistryggð lán eru enn ýmis ágreiningsatriði óleyst. Seðlabanki Íslands telur því mikilvægt að niðurstaða í þeim málum fáist sem fyrst og styður því samþykkt frumvarpsins.“

Það má kannski segja að þarna endurspeglist sjónarmið sem ræður því að ég styð þetta frumvarp, þ.e. að ég tel það vera til bóta, það er skref til að hjálpa. En gerum okkur ekki væntingar um að þetta sé lausn á því að við getum leyst úr ágreiningsefnum.

Umboðsmaður skuldara vekur einmitt athygli á því hve erfitt hefur reynst að vinna úr málum, þeir hafa endalaust þurft að endurskoða afstöðu sína, breyta fyrri úrskurðum í sambandi við greiðsluaðlögun og annað vegna nýrra dóma. Þeir hafa verið búnir að finna út ákveðnar aðferðir, reiknað út og gert samninga og framfylgt, hafa jafnvel samið við nokkur þúsund manns en svo koma nýir dómar sem breyta málum og þá þarf að reikna og vinna allt upp á nýtt. Þetta hefur tafið alla úrvinnslu og er eiginlega dæmigert fyrir það sem við höfum verið að fara í gegnum á sínum tíma.

Ástæða er til að vekja athygli á því að þessar hugmyndir um að geta leyst skuldavandann með pennastrikum, og það kemur nú fram annars staðar þegar allsherjar- og menntamálanefnd hefur verið að fjalla um málið, tengjast skuldavanda vegna húsnæðiskaupa en skuldavandinn er, sérstaklega greiðsluvandinn — og það kemur ágætlega fram í skýrslu sem við fyrrverandi ráðherrar skiluðum um gang mála um hvað hefur verið gert og hvað hefur ekki tekist að gera. Þar kemur mjög skýrt fram að ekki er óalgengt að greiðslubyrði einstaklinga sé allt að 50% vegna annarra lána en húsnæðislána.

Þegar við fórum í 110%-leiðina í gegnum Íbúðalánasjóð var unnin ítarleg greining á þeim hópi sem átti rétt á niðurfellingum þar, sem var um nokkur þúsund manns. Í heildina voru það 12 þúsund aðilar sem fengu niðurfellingar vegna 110%-leiðarinnar. Í ljós kom að meðalafborganir þeirra sem sóttu um og áttu rétt þar voru í kringum 90 þúsund kr. á mánuði, sem er í sjálfu sér undir leiguverði almennt á markaði, ef maður getur sagt það, miðað við svona meðalíbúðir, en á sama tíma var allt upp í sömu upphæð að ræða í afborganir af öðrum lánum. Það voru yfirdráttarlán, það gátu verið bílalán, það gátu verið lán vegna annarra hluta, kreditkort. Það undirstrikar að þó að okkur takist að færa niður höfuðstól með einhverjum hætti er það ekki lausnin á heildarvandanum. Það er heilmikið eftir af vinnu og ég hvet þingið og þá sem nú stjórna landinu til að gleymi ekki þeim þáttum.

Ástæða er til að vekja athygli á því að ekki nema rétt helmingur íbúa landsins er í húsnæði í einkaeigu, margir búa í leigu og mjög margir skulda og eru í eigin húsnæði og mjög margir eru skuldlausir. Við lofuðum tvennu þegar við vorum að vinna úr þessu, þ.e. að vandinn yrði ekki leystur með skattálögum á alla og að honum yrði ekki vísað inn í framtíðina. Ég heiti á núverandi ríkisstjórn að standa við það þannig að lausnirnar miðist við að leysa það þá með þeim hugmyndum sem uppi eru um að nýta sér uppgjör á gömlu bönkunum.

Það var athyglisvert þegar hæstv. forsætisráðherra vakti athygli á því við værum með einhverjar hugmyndir um sölu á bönkum. Sú hugmynd gengur út á að kaupa þrotabú þeirra banka og selja það aftur og innleysa hagnað á því sem hægt er að nýta til að leysa vanda þeirra sem eru með hækkaðan höfuðstól í húsnæðislánum. Við fögnum því að það verði reynt og styðjum alla viðleitni til þess, en málið er ekki komið svo langt að maður sjái fyrir endann á því.

Laust og fast er þetta fyrsta mál frá allsherjar- og menntamálanefnd á þessu sumarþingi. Ég tek undir það sem hv. formaður nefndarinnar, Unnur Brá Konráðsdóttir, sagði um að ágætt samstarf hafi verið um málið í nefndinni, jafnvel þó að tíminn sé skammur gerðum við okkur grein fyrir því. Við gerum athugasemdir við að ýmis önnur mál hefðu mátt vera utan nefndar, næsta mál sem hér er á dagskrá hefði náttúrlega aldrei átt að fara inn á sumarþing, við hefðum aldrei átt að vera að eyða tíma í það. Í staðinn hefði mátt ræða þetta enn betur og þau stóru mál sem eru til úrlausnar á sumarþinginu.

Ég þakka samstarfið um þetta mál og vænti þess og veit að áfram mun verða ágætt samstarf í nefndinni.