142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[12:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna er rætt sérstaklega um að þetta millidómstig og að það hafi verið rætt í fyrri ríkisstjórn. Það er í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar ef ég man rétt að skoða þau mál og sjálfsagt að inna innanríkisráðuneytið eftir því með hvaða hætti unnið verður að málinu og hversu langt það er komið.

Ég deili þeirri skoðun að full ástæða sé til þess að reyna að gera dómskerfið sem skilvirkast þannig að það geti tekið með hraði ákveðin mál í gegn en það eru ekki bara skuldavandamál. Við höfum náttúrlega fylgst með þeirri umræðu sem varð hér og er um hve mikið álag sé á dómstóla út af kynferðisafbrotamálum þar sem við fengum yfir okkur holskeflu þar sem eru að koma upp gömul mál og náttúrlega skelfileg mál sem eru svartur blettur á samfélagi okkar og þurfa vandaða úrvinnslu og skýra og klára afgreiðslu sem fyrst. Ég veit að málum er hraðað eins og hægt er, en þetta er svona dæmi um það.

60 málin sem nefnd eru í greinargerðinni er heildarfjöldinn. Ef ég man rétt eru rúmlega 50 í Héraðsdómi Reykjavíkur. (Gripið fram í: 76 …) Fyrirgefið, þau hafa verið fleiri í heildina en 60 hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Það er voða erfitt að taka mark á fjöldanum akkúrat plús það að við hvert mál, hverja dómsniðurstöðu sem kveðin er upp bætast við ný mál í tengslum við það og með einhverjum hætti þarf auðvitað að nást sátt um það að menn sæki ekki, sérstaklega fjármálafyrirtækin, rétt sinn endalaust með orðalagi um einhver smáatriði.

Gerðar voru tilraunir til að ná samstöðu um að dæma til dæmis öll gengistryggð lán ólögmæt. Það gekk býsna vel og sumir bankanna hafa fylgt því alveg, jafnvel þó að það kunni að vera álitamál hvort þau séu ólögmæt. Það eru líka teikn um það á lofti að menn sæki og láti endurskoða það og ég harma það mjög. Ég held að mál sé að linni. Við verðum að koma málunum áfram og ljúka þeim eins fljótt og hægt er.