142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[12:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að virka undarlegt að við nefndarmenn tölum saman í andsvörum en mér finnst samt ástæða til að fylgja nokkrum atriðum eftir af því að margt af því sem hefur komið í umsögnum er maður rétt að lesa þessa klukkutímana vegna þess að stutt er síðan umsagnarfresturinn rann út.

Mig langar aðeins að heyra í hv. þingmanni varðandi fyrirvara hennar. Ég deili áhyggjum hennar varðandi það að væntingar um að þarna sé verið að leysa vanda skuldugra heimila sé oftúlkun á þessum lögum og þetta muni ekki ná til mjög margra, en eftir sem áður skref sem gæti hjálpað. Og þar með erum við tilbúin að taka það skref og sjálfsagt að fylgja því eftir eins og hægt er þannig að það skili sér að fullu.

Ég sé í fyrirvara hv. þingmanns að það er einmitt tekið fram, með leyfi forseta: „Verður því ekki séð að frumvarp þetta breyti miklu um núverandi stöðu, hvorki fyrir málsaðila né fyrir dómstólana sjálfa.“

Mig langar að vitna aðeins í texta frá umboðsmanni skuldara, þar kemur það einmitt fram í hnotskurn hversu umfangsmikið þetta er, með leyfi forseta:

„Enn kunna þó einhver ágreiningsefni að vera til staðar sem nauðsynlegt er að fá skorið úr fyrir dómstólum. Ágreiningsmál sem varða tengingu fjárskuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla hafa verið einkar flókin og umfangsmikil og hefur það m.a. valdið því að þau hafa tekið sinn tíma innan dómskerfisins. Í þessum málum kann að reyna á flóknar reikniaðferðir og því hafa lögmenn lántaka oft þurft á sérfræðiaðstoð að halda við meðferð mála. Það er því brýnt að lögmenn lántaka fái hæfilegan tíma til að geta gætt hagsmuna skjólstæðinga sinna og kunna stuttir frestir e.t.v. að gera þeim erfitt fyrir í þeim efnum. Verði frumvarpið að lögum er því nauðsynlegt að þeir séu hafðir með í ráðum þegar dómari sér til þess að lögbundnir frestir séu eins stuttir og mögulegt er.“

Þarna er sem sagt vakin athygli á því sama og (Forseti hringir.) Lögmannafélag Íslands gerir, að það sé þeirra sem sækja málið að ákveða líka hversu mikill hraði á að vera á málum (Forseti hringir.) til að tryggja að málið fái vandaða meðferð. Ég spyr hvort þingmaður deili ekki þeim skoðunum með þessum aðilum.