142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[12:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er líka athyglisvert að dómstólaráð, eins og ég vitnaði til í ræðu minni áðan, leggst alls ekki gegn því að ákvæði frumvarpsins nái fram að ganga en vekur athygli á veigamiklum þáttum sem við ræddum í nefndinni og mér finnst það skipta miklu máli. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað það varðar hvort við þurfum ekki með einhverjum hætti að tryggja að dómstólarnir fái mannafla og starfsumhverfi til að þessi mál geti verið í forgangi ef þannig vill til. Það er einmitt það sem dómstólaráð vekur athygli á í umsögn sinn. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Við Héraðsdóm Reykjavíkur eru nú til meðferðar um það bil 60 mál af framangreindum toga“ — þá erum við að tala um gengistryggð og verðtryggð lán — „og hefur dómstjóri við dómstólinn um nokkurt skeið lagt á það áherslu að gerðar verði nauðsynlegar ráðstafanir til að leysa úr þeim málum“ — þ.e. málið hefur verið í forgangi og ýtt áfram umfram önnur mál — „ásamt öðrum umfangsmiklum málum sem þangað hafa borist á síðustu mánuðum, m.a. með tímabundinni fjölgun dómara.“ — Ef þetta tekst ekki segir dómstólaráð, með leyfi forseta: „Að öðrum kosti telur hann að stefnt geti í að málsmeðferðartími lengist verulega.“

Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns á þessu atriði plús að við erum að tala um 17. atriði, e-kafla í umsögn Lögmannafélagsins þar sem vakin er einmitt athygli á því að flýtimeðferð dómstóla ein og sér eyðir ekki allri óvissu, eins og ég kom nú aðeins inn á. Ég spyr hvort þingmaðurinn deili ekki þeim áhyggjum að þegar komist er að niðurstöðu í einu máli þá kallar það oft á að fylgja málinu eftir með frekari málsóknum og ekki síst lántakanum í hag vegna þess að það getur oft þurft að skera úr málum þannig að (Forseti hringir.) lántaki hafi skýran rétt. Er einhver leið fram hjá þessu? Verða menn ekki að sæta því að þetta taki þann tíma, því miður?