142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:34]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Dómarar hafa auðvitað talsvert svigrúm til að veita fresti í málsmeðferð, takmarka fresti og ákveða fresti í venjulegri málsmeðferð í héraði. Dómarar hafa hins vegar alla jafna gefið þá fresti sem lögmenn eða málsaðilar telja sig þurfa. Þegar svona ákvæði kemur eða verður að lögum, segjum það, styrkir það auðvitað svolítið stöðu dómara að stjórna þessu með festu og segja að tilgangur þessa ákvæðis sé að hraða meðferð og ýta á eftir mönnum að ljúka undirbúningi fyrir aðalmeðferð og klára málið. Þetta er líka grunnur að því að dómarar kveði upp dóm eins fljótt og auðið er eftir að mál er dómtekið. En þetta bindur menn ekki þannig að nákvæm tilgreining sé á tímanum sem þeir hafa. Hins vegar getum við bundið í lög, og dómari í héraði hefur svo sem ekkert með það að gera, að stytta áfrýjunarfrest í málum því að hinn almenni áfrýjunarfrestur í lögunum er þrír mánuðir. Ég tel fulla ástæðu til að skoða hvort stytta ætti kannski þann frest í einn mánuð og hraða meðferðinni með þeim hætti.