142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Þetta var mjög skýrt að því er varðar þann lið sem ég spurði um. Eftir stendur, eins og ég skil þetta, hinn almenni áfrýjunarfrestur sem er bundinn við þrjá mánuði þannig að ef menn ætluðu að gefa dómara beina heimild til þess að stytta hann þá yrði að vera sérstakt jákvætt ákvæði í lögunum í því efni. Þá er spurning hvort ekki væri rétt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd mundi skoða það á milli 2. og 3. umr. hvort tilefni sé til að taka á því sérstaklega því að áfrýjunarfresturinn er auðvitað hluti af þeim heildartíma sem málið tekur.

Það er spurning hvort þingmaðurinn sé sammála því að skynsamlegt væri af nefndinni að skoða málið milli 2. og 3. umr. með tilliti til þess hvort setja ætti beinlínis inn ákvæði um áfrýjunarfresti í þessum málum þannig að slík heimild væri til staðar og óyggjandi.