142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir góða og yfirgripsmikla umræðu um þetta mál. Ýmislegt hefur verið skoðað í þessu efni, sérstaklega vangaveltur um raunverulegt vægi þessarar lagabreytingar, sem borið hefur ögn á góma hjá nokkrum þeim sem tekið hafa til máls undir þessum lið og eru eilítið í takti við fyrirvara þeirrar sem hér stendur sem lýtur að því að frumvarpið breyti ekki miklu um núverandi stöðu, hvorki fyrir málsaðila né fyrir dómstólana sjálfa, vegna þess hversu almenns eðlis það er og hversu almennt það er orðað. Það endurspeglast líka mjög kirfilega í umsögn Lögmannafélags Íslands. Við umræðuna hefur líka verið rætt um áfrýjunarfresti og ýmislegt þeim viðkomandi til þess að freista þess að ná markmiðum frumvarpsins og hafa komið upp vangaveltur hér um hvort markmiðunum verði hugsanlega betur náð með því að horfa enn frekar til þeirra sjónarmiða.

Þess vegna kveð ég mér hér hljóðs, virðulegur forseti, í annarri ræðu því að ég vil árétta það sem hefur raunar komið fram hjá fleiri þingmönnum, að brýnt er að málið komi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og að við skoðum sérstaklega þann þátt. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að nálgast yfirlýst markmið frumvarpsins sem er að flýta þessum málum eins og kostur er. Það er í sjálfu sér gott og göfugt, en um leið er ég nokkuð hugsi yfir þeim sjónarmiðum sem fram koma um að í raun breyti frumvarpið litlu eða engu, að á því sé kannski ekki hægt að byggja mjög skýran rétt þar sem það er mikilvægt í einkamálalögunum að skýrt sé hvaða heimildir eru í raun á ferðinni. Menn hafa bent á að almennt orðalag eins og það að hraða meðferð slíks máls uppfylli ekki þau skilyrði.

Ég vil hins vegar taka það fram, eins og ég ræddi reyndar í fyrri ræðu minni, að ég er ekki sammála þeirri niðurstöðu Lögmannafélagsins um að leiðin sem þeir leggja til, að fella flýtimeðferð undir XIX. kafla einkamálalaganna, sé besta leiðin, en ég er mjög hugsi yfir röksemdum þeirra að öðru leyti.

Nefndarmenn hafa unnið mjög vel saman og við höfum getað reifað þessi sjónarmið í bróðerni. Ég tel að það hljóti að gilda það sama þegar við tökum þau atriði til skoðunar sem ég hef nefnt, á milli 2. og 3. umr. til þess að freista þess að búa málið enn betur úr garði.