142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað þannig að ekki er verið að halda sig við óbreytt ástand því að í landinu eru í gildi lög sem breyta því fyrirkomulagi. Hér er verið að víkja frá því, meðal annars með því að fjölga úr fimm í sjö og breyta hlutverki stjórnar Ríkisútvarpsins. Hér er því verið að gera efnislegar breytingar.

Gagnrýni mín á mál hv. þingmanns — hv. þingmaður gerði fyrst og fremst grein fyrir nefndarálitinu og ég er að gagnrýna nefndarálitið, ég er að segja að í því er ekki vikið að þeim sjónarmiðum sem komu fram fyrir nefndinni, meðal annars í umsögnum, en það er alsiða að gerð sé grein fyrir slíku. Mér finnst þetta vera lítilsvirðing við þá aðila sem komu fyrir nefndina og sendu nefndinni umsögn um málið að meiri hluti nefndarinnar skuli ekki einu sinni virða þá þess að gera grein fyrir sjónarmiðum þeirra og rökstyðja þá afstöðu sína af hverju þeir eru ósammála því sem kemur fram í áliti umsagnaraðila.

Það er ekki nóg að koma bara og segja: Málið er einfalt og við erum sammála því að það verði samþykkt óbreytt, punktur og basta. Þannig getur þingið ekki komið fram. Það verður að sýna því fólki sem leggur vinnu í að skrifa umsagnir, koma fyrir nefndina og fylgja sínu máli eftir þá virðingu að það sé þá alla vega efnisleg umfjöllun um þau viðhorf og að meiri hlutinn, ef hann er ósammála þeim viðhorfum sem koma fram í umsögnum, rökstyðji það af hverju hann er ósammála þeim.

Mér finnst ekki boðlegt að koma með meirihlutaálit sem er svona rýrt í roðinu og leggja til að málið verði samþykkt óbreytt án þess að hafa rökstutt afstöðu sína í raun með nokkrum hætti. Hér eru bara efnisatriðin úr greinargerð ráðuneytisins tekin inn í álitið og þau birt á nýju þingskjali sem heitir nefndarálit.

Ég geri verulegar athugasemdir við þetta, virðulegur forseti, og tel að þetta þurfi og hljóti að kalla á ítarlega umræðu í þingsal.